Vaxtalög

104. fundur
Föstudaginn 24. febrúar 1995, kl. 02:18:41 (4904)


[02:18]
     Viðskiptaráðherra (Sighvatur Björgvinsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ekki trúi ég öðru en því að þáv. formanni Framsfl., Ólafi heitnum Jóhannessyni, hafi verið fyllilega ljóst hvað hann var að gera þegar hann beitti sér fyrir setningu þessara laga. Ég mundi satt að segja orða það svolítið öðruvísi en hv. þm. gerði að tala um árangur þeirra sem timburmenn af verkum fyrrv. flokksleiðtoga Framsfl. Ég lít ekki svo á að íslenska þjóðfélagið hafi orðið fyrir slíkum áhrifum af Ólafslögum að megi jafna því við timburmenn. Ég tel þvert á móti að þetta sé ein merkasta lagasetning seinni ára og ég væri stoltur af því ef ég væri flokksmaður Ólafs heitins Jóhannessonar að þessi lög eru kennd við hann.