Vaxtalög

104. fundur
Föstudaginn 24. febrúar 1995, kl. 02:35:08 (4912)


[02:35]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hæstv. viðskrh. veit væntanlega vel hvaða orðaleppum ég var að mótmæla hér. Það voru þessar setningar sem ég hafði hér eftir hæstv. ráðherra almennt um stöðu Alþb. og að það væri einhver undirmálsflokkur og utangarðsflokkur í íslenskum stjórnmálum sem í raun og veru hefði ekkert gott gert og hefði ekkert til þess að mæla með sér nema þetta eitt eða svo til þetta eitt, að hafa staðið að setningu Ólafslaga. Auðvitað eru þetta hrein ómagaorð og ekki síst komandi frá einum af ráðherrum Alþfl. Ég held að það megi alveg fara yfir söguna í þeim efnum og það muni á spjöldum hennar standa ýmislegt sem Alþb. verður ekki síður þakkað en öðrum flokkum varðandi uppbyggingu velferðarkerfisins hér í landinu, réttindasókn okkar til að mynda í hafréttarmálum og öðrum slíku. Og ætli það sé ekki þannig að það þykir nokkuð beysnari frammistaða Alþb. og Lúðvíks Jósepssonar til að mynda í þeim málum heldur en ræfildómur Alþfl. sem heyktist í viðreisninni með íhaldinu og dró kjarkinn úr mönnum með öllum tiltækum ráðum varðandi það að sækja réttindi Íslendinga á hafinu.
    Hitt er svo náttúrlega málflutningur neðan við virðingu hæstv. viðskrh. að nota það sem rök í máli sínu að eftir að einu sinni höfðu verið sett lög og verðtrygging fjárskuldbindinga tekin upp og fest í sessi sé það eitthvert innlegg í málið að menn skuli ekki hafa kippt henni burtu þegar þeir komust til valda. Auðvitað umgangast menn ekki þessa hluti þannig, skárra væri það nú. Hér þykir það mikil alvörumál og vandasamt lögfræðilegt álitamál hvernig standa skuli að minni háttar breytingum á reiknigrundvelli þessarar verðtryggingar, þótti bæði 1989 og aftur núna væntanlega, enda er í frv., sem er verið að mæla fyrir, vitnað í hæstaréttardóma sem liggi fyrir um að stjórnvöld hafi haft rétt til og staðið lögformlega rétt að því að breyta þessum reiknigrundvelli á sínum tíma. Það er gert svo vegna þess að menn átta sig á því að hér er vandasamt mál á ferð og þar með segir það líka allt sem segja þarf um að það er ekkert innlegg í málið að menn hafi ekki rokið til og kippt verðtryggingunni úr sambandi eftir að hún var einu sinni komin á.