Greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks

104. fundur
Föstudaginn 24. febrúar 1995, kl. 02:42:13 (4916)



[02:42]
     Félagsmálaráðherra (Rannveig Guðmundsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks. Frv. er samið í tilefni af nýgerðum kjarasamningi aðila almenna vinnumarkaðarins og yfirlýsingu samningsaðila um að framkvæmd samningsins sé háð því að Alþingi samþykki nauðsynlegar breytingar á lögum um greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks, samanber og yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar af því tilefni. Frv. er samið í samráði við samningsaðila.
    Þar sem um veigamiklar breytingar er að ræða á lögum um greiðslu Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks þótti rétt að semja frv. til nýrra laga um sama efni.
    Samkvæmt hinum nýgerða kjarasamningi skal verkafólk í fiskvinnslu njóta kauptryggingar eftir níu mánaða starf í sama fyrirtæki. Kauptrygging samkvæmt samningnum felur m.a. í sér að vinnuveitandi er skuldbundinn til að greiða starfsmanni föst laun fyrir dagvinnu í samræmi við samninginn þótt hráefnisbrestur valdi vinnslustöðvun, enda sé það í samræmi við ákvæði laga um greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks.
    Kauptryggingarákvæði samningsins taka til verkafólks við verkun og vinnslu á ferskum sjávarafla, þ.e. í frystingu, söltun og skreiðarverkun og rækju- og skelvinnslu.
    Frv. felur í sér nauðsynlegar breytingar á lögum um greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks, nr. 34/1988, vegna starfsfólks sem nýtur réttinda samkvæmt þessum ákvæðum samningsins. Ljóst er að ákvæði samningsins um kauptryggingarsamninga munu valda því að fiskvinnslufólki sem nýtur kauptryggingar mun fjölga verulega en samkvæmt upplýsingum frá formanni samtaka fiskvinnslustöðva er stór hluti þeirra starfsmanna sem starfa við fiskvinnslu þegar búnir að vinna yfir níu mánuði hjá sama fyrirtæki og mundu því fara strax inn á kauptryggingarsamninga. Það er talið að fjöldi þeirra sem starfar í fiskvinnslu sé á milli 5.000 og 5.500 manns í um það bil 4.500 stöðugildum.
    Á móti útgjaldaaukningu sjóðsins vegna þessa kemur til með að draga úr greiðslu sjóðsins til einstaklinga sem ella væru á atvinnuleysisskrá þar sem fiskvinnslufólk sem nýtur kauptryggingar á ekki rétt til atvinnuleysisbóta samkvæmt almennum ákvæðum laga um atvinnuleysistryggingar meðan það er á launum í tímabundinni vinnslustöðvun.

    Skv. 1. gr. frv. er það skilyrði fyrir greiðslu Atvinnuleysistryggingasjóðs til fiskvinnslufyrirtækja að starfsfólkið njóti kauptryggingar samkvæmt almennum kjarasamningum og fái greidd laun í vinnslustöðvun. Með vinnslustöðvun er átt við að hráefnisskortur eða aðrar sambærilegar orsakir valdi því að vinnsla liggur niðri tímabundið á annars venjubundnum vinnslutíma fyrirtækis. Með orðalaginu ,,sambærilegar orsakir`` er haft í huga að heimilt verði að greiða vegna vinnslustöðvunar sem verður vegna þess að ekki er talið réttlætanlegt að vinna afla af rekstrarlegum ástæðum, t.d. vegna ónógs magns eða hráefnisverðs og því verður í reynd um hráefnisskort að ræða.
    3. mgr. greinarinnar felur í sér þá breytingu að í stað þess að samkvæmt núgildandi lögum eru ekki greiddar bætur tvo fyrstu dagana í hverri vinnslustöðvun eru fyrirtæki aðeins án greiðslu tvo daga á almanaksári.
    4. mgr. felur í sér þau nýmæli að ofan á dagpeningafjárhæð samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar skuli greiða af bótafjárhæðinni fjárhæð sem svarar lífeyrissjóðsiðgjaldi atvinnurekenda, þ.e. 6%, og tryggingagjaldi atvinnurekenda, sem nú er 3,16%. Fyrrnefnda atriðið er í samræmi við almennar reglur í lögum um atvinnuleysistryggingar, sbr. 3. mgr. 23. gr. laga nr. 93/1993, en ekki hið síðarnefnda. Auk þess er hámarksgreiðslutímabilið lengt úr 20 dögum í 30 daga í hverri vinnslustöðvun. Enn fremur er hámarksgreiðslutímabilið á hverju ári lengt úr 45 dögum í 60 daga.
    Samkvæmt 2. gr. núgildandi laga þurfa fyrirtæki að tilkynna fyrirhugaða vinnslustöðvun með a.m.k. fimm sólarhringa fyrirvara. Í 2. gr. frv. er lagt til að fyrirvarinn verði styttur í þrjá sólarhringa.
    Greinin felur enn fremur í sér nauðsynlegar breytingar á orðalagi til samræmis við ákvæði kjarasamningsins sem talar um kauptryggingarsamninga en samkvæmt gildandi lögum er notað orðalagið ,,fastráðið fiskvinnslufólk``.
    Gert er ráð fyrir sá aðili sem lögum samkvæmt annast atvinnuleysisskráningu á staðnum taki við tilkynningu um vinnslustöðvun og staðreyni að um vinnslustöðvun sé að ræða af þeim orsökum sem fyrirtæki hefur tilgreint.
    Greiðslufyrirkomulag til fiskvinnslufyrirtækja hefur að undanförnu verið að færast í það horf að skrifstofa Atvinnuleysistryggingasjóðs hefur ákvarðað og afgreitt greiðslur beint til fyrirtækja án milliliða. Þykir rétt að leggja til breytingar á 2. gr. í samræmi við breytta framkvæmd enda hefur það í för með sér að unnt er að hraða afgreiðslu mála. Úrlausn skrifstofu er unnt að skjóta til stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs skv. 3. mgr. greinarinnar.
    Í 3. gr. er kveðið á um skyldu fyrirtækis til að tilkynna um breytingar á kauptryggingarsamningum meðan á vinnslustöðvun stendur og rétt Atvinnuleysistryggingasjóðs og atvinnuleysisskráningaraðila til að hafa aðgang að launa- og framleiðslubókhaldi fyrirtækis, svo og kauptryggingarsamningum sem eru í gildi milli fyrirtækis og starfsmanna þess. Þessi ákvæði eru efnislega hliðstæð ákvæðum 3. gr. núgildandi laga.
    Í 3. mgr. 3. gr. er gert ráð fyrir að í reglugerð verði nánar kveðið á um þau gögn sem fyrirtækið verður að leggja fram til að geta notið greiðslna úr sjóðnum.
    4. gr. fjallar um greiðslu til fyrirtækja vegna starfsfræðslunámskeiða fyrir fiskvinnslufólk. Ákvæðið er samhliða 4. gr. gildandi laga.
    Í 5. gr. er almenn reglugerðarheimild og í 6. gr. hefðbundið gildistökuákvæði.
    Ég legg til, virðulegi forseti, að málinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. félmn.