Staðfesting ákvörðunar EES-nefndarinnar

104. fundur
Föstudaginn 24. febrúar 1995, kl. 03:01:16 (4918)


[03:01]
     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. á þskj. 727 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu

EES-nefndarinnar, nr. 18 frá 28. okt. 1994, um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.
    Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 18 felur í sér að tilskipun ráðsins og Evrópuþingsins, nr. 94/19/EB, um innlánatryggingakerfi, verður hluti af EES-samningnum. Hér á landi eru þegar starfandi tveir sjóðir sem gegna því hlutverki að tryggja innstæður í innlánsstofnunum. Þeir eru: Tryggingarsjóður viðskiptabanka og Tryggingarsjóður sparisjóða. Þeir starfa á grundvelli ákvæða í X. kafla í lögum nr. 43/1993, um viðskiptabanka og sparisjóði. Samkvæmt þeim eru allar innstæður tryggðar. Ekkert hámark er á þeim innstæðum sem tryggðar eru en hins vegar skal skerða bætur ef eignir sjóðanna hrökkva ekki til að bæta tjón að fullu.
    Þar sem innstæðutryggingarsjóðir eru starfandi hér á landi hefur Ísland þegar uppfyllt ákvæði tilskipunarinnar sem hér um ræðir að hluta til. Nokkur atriði tilskipunarinnar kalla hins vegar á breytingu lagaákvæða um sjóðina. Hér er einkum um að ræða eftirfarandi:
    1. Afdráttarlaus skylda til að undanþiggja tilteknar innstæður í tryggingum, þ.e. innstæður í eigu annarra innlánsstofnana og innstæður sem tengjast málum þar sem sakfellt hefur verið fyrir peningaþvætti. Jafnframt þarf að kveða skýrt á um skylduaðild íslenskra banka og sparisjóða af tryggingarsjóðunum tveimur og möguleika á aðild útibúa erlendra banka hér á landi að sjóðunum. Einnig eru ákvæði um upplýsingar til viðskiptavina um aðild að tryggingarsjóðunum og bann við notkun slíkra upplýsinga í samkeppnisskyni. Það vantar í lögin úrræði stjórnvalda ef viðskiptabanki, sparisjóður eða útibú slíkrar stofnunar hér á landi uppfyllir ekki skyldur sínar gagnvart tryggingarsjóðunum. Drög að frv. til laga um breytingu á fyrrgreindum kafla um viðskiptabanka og sparisjóði hafa þegar verið samin og verða væntanlega lögð fram á Alþingi haustið 1995 að höfðu nauðsynlegu samráði við hagsmunaaðila.
    Að lokinni þessari umræðu, virðulegi forseti, legg ég til að málinu verði vísað til síðari umr. og hv. utanrmn.