Grunnskóli

105. fundur
Föstudaginn 24. febrúar 1995, kl. 10:33:23 (4920)


[10:33]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Það vekur nokkra undrun mína að stjórnin í þinginu og meiri hlutinn skuli velja þennan morgun undir það að fara að ræða grunnskólafrv. á nýjan leik. Satt best að segja kem ég ekki auga á annað en það bíði okkar ærinn starfi á þinginu þennan rúma sólarhring ef vel ætti að vera sem við höfum til stefnu til að ljúka afgreiðslu mála þó ekki fari stór hluti þess tíma í að ræða hér mjög umdeilt ágreiningsmál sem ég hefði talið að hollast væri fyrir hæstv. ríkisstjórn og hæstv. menntmrh. að fara að velta alvarlega fyrir sér hvort hann hefur erindi sem erfiði að vera að baksa með þetta mál eins og allar aðstæður eru í kringum það. Hér eru til umfjöllunar í nefndum enn þá mikilvæg mál sem ljóst er að þurfa að fá afgreiðslu og lögð er mikil áhersla á eins og frumvörp sem tengjast kjarasamningum og stjórnarskrárbreytingar og kosningalagabreytingar og fleira af því tagi sem út af fyrir sig er ekki endilega mikill efnislegur ágreiningur um en er engu að síður viðamikil mál sem þurfa sinn tíma.
    Það sama verður ekki sagt um það frv. til laga um grunnskóla sem hér er á ferð. Það er því miður, hæstv. forseti, ákaflega umdeilt mál og um það er mjög mikill ágreiningur, bæði innan veggja þingsins og úti í þjóðfélaginu. Þó að ekkert kæmi annað til í byrjun en ýmislegt í vinnubrögðum hæstv. ríkisstjórnar að skólamálum og frammistaðan í þessum málaflokki á kjörtímabilinu þá hlyti það að nægja í sjálfu sér til þess að menn væru ekki í neinum sérstökum sáttahug við hæstv. ríkisstjórn og vinafagnaði gagnvart skólamálum eins og að þeim hefur verið staðið á kjörtímabilinu. Auðvitað er frammistaða Sjálfstfl. í þessum málum með miklum endemum. Þannig var að það tókst víðtækt pólitískt samkomulag um afgreiðslu skólamála á þingi undir lok síðasta kjörtímabils og það voru gerðar á grunnskólafrv. m.a., sem þá var til meðferðar í þinginu, talsverðar breytingar til að koma til móts við einmitt Sjálfstfl. sem fór þá mikinn í þinginu í stjórnarandstöðu. Það tókst og náðist um það merkt samkomulag og gengið var frá mjög frambærilegri og framsýnni og fullkominni löggjöf fyrir grunnskólann til næstu ára og m.a. tíu ára áætlun það hvernig grunnskólinn yrði efldur og byggður upp og innleiddur samfelldur skóladagur og fleira þar fram eftir götunum í þeirri löggjöf. Og sem Sjálfstfl. var ásamt öðrum aðili að því samkomulagi þá hefði maður átt von á því að á þessu kjörtímabili gæti ríkt sæmileg sátt um málefni skólanna og að Sjálfstfl. gæti þá sjálfum sér samkvæmur farið þannig með málin að hann héldi áfram þar sem frá var horfið enda hann aðili að afgreiðslu gildandi grunnskólalaga en það er nú öðru að heilsa. Það er nú öðru nær. Það hefur sennilega enginn einn málaflokkur farið jafnhörmulega út úr þessu kjörtímabili og einmitt skólamálin.
    Það er viðurkennt, það er ekki um það deilt, að í mennta- og menningarmálum hefur orðið um 2 milljarða niðurskurður og menn hafa frestað, mér liggur við að segja hverju einasta umbótaatriði í skólamálum sem búið var að tímasetja og ákvarða samkvæmt grunnskólalögum og áætlun í skólamálum. Það er ekki nóg með það heldur hefur líka beinlínis verið skorið niður og skólastarfið þar með dregið saman þannig að það er nánast beinskorið í mörgum tilvikum. Kennslukvóti hefur minnkað í skólum og þar fram eftir götunum.
    Þetta er auðvitað alveg ömurlegt, hæstv. forseti, á sama tíma og flest önnur þjóðfélög keppast við að auka framlög til menntamála. Auðvitað geta menn borið fyrir sig, eins og gjarnan er gert og skal ekkert lítið úr því gert, að hér hafa að nokkru leyti verið erfið ár þó að það hafi verið mjög miklað framan af kjörtímabilinu og í raun og veru blekkt mjög um ástand mála hér að ýmsu leyti, að undanskildu einu ári, árinu 1992 sem var vissulega erfitt ár og mun á spjöldum sögunnar flokkast sem slíkt í okkar þjóðarbúskap. En að öðru leyti hefur þetta tímabil að mörgu leyti verið hagfellt eða hefði átt að vera það ef þannig hefði verið stjórnað.
    Það væru í sjálfu sér ekki stórkostleg efni til þess að beinskera grundvallarmálaflokk af þessu tagi eins og skólamálin eru með þeim hætti sem hæstv. ríkisstjórn hefur gert. Auk þess sem það er flestra manna mál að ef það sé eitthvað sem menn eigi að reyna að verja í gegnum erfiðleikatímabil þá séu það undirstöðuþættir af þessu tagi, grunnmenntunin í hverju þjóðfélagi. Það er ömurlega komið fyrir þeirri þjóð meðal þjóða sem hefur ekki efni á því að halda uppi framsæknum grunnskóla. Hvað geta menn þá yfirleitt gert í einu landi ef þeir hafa ekki lengur efni á því að búa sæmilega að æskunni og reyna að mennta hana sómasamlega miðað við þær kröfur sem tíðarandinn gerir og þann metnað sem eðlilegt er að menn hafi í þeim efnum?
    Þarna hefur hæstv. ríkisstjórn rekið mjög annarlegar áherslur, svo ekki sé meira sagt, með því að leika skólamálin með þessum hætti. Það er á öllum skólastigum ef yfir það væri farið þó að við séum að ræða grunnskólann. Það er allt frá þessum mikla niðurskurði til grunnskólans og þess að öllum umbótamálum í skólamálum hefur verið frestað ár eftir ár. Hér hefur verið flutt á hverju einasta ári þessarar ríkisstjórnar bandormur sem hefur frestað öllum umbótaþáttum í skólastarfi sem áformaðir hafa verið. Menn kunna þetta sæmilega, a.m.k. þeir sem hafa fengið þessa bandorma til að glíma við í efh.- og viðskn. eins og ræðumaður. Það er c-liður þetta og b-liður hitt um lengingu skóladagsins, um skólamáltíðir og annað þar fram eftir götunum. Alltaf frestað, ár frá ári, með bandormi hæstv. ríkisstjórnar. Það er von að hæstv. menntmrh. sé orðinn nokkuð dasaður eftir þessi fjögur ár, ég skil það mjög vel. Síðan hefur þetta gengið upp skólastigin með mjög grimmilegum niðurskurði til skólamála, með því að þrengt hefur verið að námsmönnum og þeir hraktir úr námi hundruðum saman þannig að þrátt fyrir aukið atvinnuleysi í landinu hefur þeim fækkað sem sækja framhaldsnám og háskólanám á Íslandi öfugt við það sem ætti að vera og reynt er að stuðla að í öðrum löndum. Eitt af því sem menn gera til að bregðast við atvinnuleysi er að reyna að hvetja sem flesta til að fara í nám og nota tímann þannig. En því er ekki að heilsa hér.
    Hæstv. forseti. Þetta vildi ég gera fyrst að umtalsefni í sambandi við grunnskólafrv., auðvitað hafa þessar aðstæður áhrif á hug manna til að afgreiða skólamál með þessari ríkisstjórn.
    Þá kemur að því, hæstv. forseti, að þetta frv. er á dagskrá og til umræðu á þingi við afar sérstakar aðstæður og óvenjulegar, svo ekki sé meira sagt. Þetta er til umræðu hér við þær aðstæður að kennarar í landinu eru í verkfalli og sú deila er í einum harðahnút. Undanfarna tvo til þrjá sólarhringa hafa deiluaðilar nánast ekki náðst saman að einu borði, hafa ræðst við í gegnum milliliði sinn í hvoru herberginu. Við þær aðstæður er mjög sérstakt að vera að taka frv. af þessu tagi til umfjöllunar hér og ég tala nú ekki um afgreiðslu eins og hæstv. ríkisstjórn virðist enn halda að hún geti gert.
    Ég segi það alveg eins og er, hæstv. forseti, að ég held að þeir væru betur komnir hæstv. menntmrh. og hæstv. fjmrh. uppi í Karphúsi eða inni í Rúgbrauðsgerð eða hvar það nú er sem menn eru að funda og þeir ættu í raun og veru að liggja þar með skrínukost og svefnpoka til þess að reyna að þoka þessum samningum eitthvað áfram og finna þar niðurstöðu og lausn. Eða er það virkilega þannig að ríkisstjórnin ætlar bara að láta það ráðast hvort skólarnir verða lokaðir til vors og jafnvel kennarar í verkfalli til hausts? Hvað er verið að stefna í? Hvaða mark er takandi á einhverjum frumvarpsbleðli um breytingar á grunnskólalögum af hálfu einnar ríkisstjórnar sem ekki getur samið við kennarastéttina í landinu, gengið þannig frá málum við hana að það sé vinnufriður í skólunum?
    Í öllu falli er það þannig að ég held að tíma manna væri betur varið í það að reyna að finna þar lausn en að nudda hér við þetta heygarðshorn.
    Svo kemur að því, hæstv. forseti, að það sem kannski átti að vera efnislega mest á ferðinni og

hafði verið áformað af hálfu hæstv. ríkisstjórnar var áformaður flutningur grunnskólans yfir til sveitarfélaganna sem lengi hefur verið til umræðu og má segja á dagskrá að nokkru leyti hin síðari ár og sérstaklega núna á síðari hluta þessa kjörtímabils. Af hálfu hæstv. ríkisstjórnar hefur það verið mikið kappsmál hennar að koma þessum málum yfir á sveitarfélögin. Um það væri hægt að segja mjög margt og væri auðvitað æskilegt, hæstv. forseti, að hafa við þessar aðstæður góðan tíma til þess að fara mjög vandlega yfir það mál hvort það sé, og þá með hvaða hætti, framfaraspor í þessum efnum að færa þennan málaflokk alfarið yfir til sveitarfélaganna. Nú er það svo að framkvæmdin hefur verið þar og ábyrgðin á dagsdaglegum rekstri skólanna verið hjá sveitarfélögum en verkaskiptingin sú að ríkisvaldið ber ábyrgð og greiðir kennurum laun.
    En jafnvel þetta er kannski ástæða til að setja inn fyrir sviga í bili vegna þess að það eru aðrir og praktískari hlutir sem snúa að þessum áformaða tilflutningi sem brenna á mönnum og eru óleystir. Þar er náttúrlega tvennt stærst. Það eru annars vegar samningar við sveitarfélögin um þessa verkefnatilfærslu og hins vegar samningar við kennarastéttina í landinu um öll þeirra mál, öll þeirra réttindamál, öll þeirra starfsskilyrði sem að þessu máli lúta. Ég verð að segja alveg eins og er að ég held að það sé ekki hægt að bjóða upp á það með fullkomnari hætti að láta eitt mál hanga í lausu lofti en hér er gert þegar hvort tveggja fer saman gagnvart kennurum að þeir eru í verkfalli, það eru lausir allir kjarasamningar við þá og það næst ekki saman, og svo hitt að varðandi öll þeirra réttindamál og þeirra stöðu samfara þessum tilflutningi er engin lausn af neinu tagi í sjónmáli. Það verk er algerlega óunnið.
    Þá verð ég að segja alveg eins og er að ég skil ekki tilganginn með því að nudda með þetta. Mér verður þá að fyrirgefast, hæstv. forseti. Ég botna ekkert í þessu. Til hvers er verið að þessu hér og nú þegar það langstærsta sem liggur í þessu máli, frágangur á því við annars vegar kennarastéttina og hins vegar sveitarfélögin er allur eftir? Þá eru menn að byrja á öfugum enda. Það á að vera endapunktur málsins að löggjafinn leggi blessun sína yfir tilflutninginn þegar búið er að undirbúa hann og ganga þannig frá honum að allir eru á eitt sáttir um það hvernig það skuli gerast, þá á að bera málið inn á þing, þá á að bera það undir löggjafann. Er þetta fullnægjandi frágangur að öllu leyti? Eigum við að blessa þetta með því að samþykkja lög um tilfærsluna? Það á ekki að byrja á því.
    Það er ótrúlegt, satt best að segja, að í tímaþröng á síðasta sólarhring þinghaldsins þá skuli menn vera að baksa með mál af þessu tagi í algeru tilgangsleysi vegna þess að menn eru m.a. búnir að viðurkenna það og hv. meiri hluti menntmn. er sjálfur búinn að viðurkenna það að málið sé í lausu lofti með því að leggja til brtt. um frestun á gildistökuákvæðinu. Hafi hún ekki komið hér fram þá veit a.m.k. öll þjóðin að hún hefur gengið á milli manna um að gildistöku málsins verði bakkað svo og svo mikið, a.m.k. til áramóta og væntanlega fram undir byrjun skólaárs á öðru ári. Hvað er þá eftir ef hér á eftir að sitja þing í vor og aftur heilan vetur áður en þessi breyting kæmist til framkvæmda hvort sem er? Til hvers þá afgreiðsla á málinu á þessu þingi sem er að ljúka störfum og nýtt kjörtímabil er að hefjast með að einhverju leyti nýjum mönnum og e.t.v. nýjum sjónarmiðum í þessum efnum?
    Það er bersýnilega augljóst að málið mun þá hvort eð er koma með einum eða öðrum hætti aftur til umfjöllunar þannig að þegar þetta er skoðað þá er erfitt að skilja það hvað annað er eftir í þessu en einhver þráhyggja, einhver misskilinn metnaður manna í því að þeim líði eitthvað betur eða hafi af meiru að má í þessum málum hafandi komið þessu í gegn. Ég held að það sé misskilningur, sérstaklega ef það gerist í harðri andstöðu, bæði í pólitískum ágreiningi þannig að það sé engin samstaða pólitískt um meðferðina á þessum málum og svo í mjög hörðum slag við uppeldis- og kennslustéttirnar í landinu. Eða er það eftir skoðun núverandi hæstv. menntmrh. og ríkisstjórnar að það sé hægt að reka skólana á Íslandi í grenjandi andstöðu við alla kennarana? Er e.t.v. hugsunin sú hjá hv. meiri hluta, kannski hv. formaður menntmrn. svari því, að hægt sé að reka skólana án kennara? Er það kannski hin nýja menntastefna íhaldsins að kennarar séu bara óþarfir? Það þurfi ekkert að vera að semja við þá og það þurfi ekkert að taka tillit til þeirra viðhorfa þegar verið er að afgreiða grundvallarlöggjöf um skólamál.
    Hér eru ýmsir miklir menntastefnuspekingar úr Sjálfstfl. inni og ég sé að þeim er órótt. Þetta er kannski ekki svona, þeir átti sig á því þrátt fyrir allt að það sé þörf fyrir kennara í skólum landsins. En hvað eru þeir þá að gera með þessari afgreiðslu, hv. þingmennirnir og hæstv. menntmrh.? Ég held að þetta sé ekki mjög skynsamlegt. ( Menntmrh.: Það mundi spara tímann fyrir þingið ef þingmaðurinn læsi frv. áður en hann heldur áfram.) Þingmaðurinn er búinn að lesa frv. ( Menntmrh.: Nei.) Jú, jú, jú. ( Menntmrh.: Greinilega ekki.) Ég get svo sem lesið frv. upp fyrir hæstv. menntmrh. ef hann þarf á því að halda að rifja upp efni þess, það er allt í lagi, þetta eru nokkrar greinar og ég get vel tekið mér tíma í það. Ég er þokkalega læs það best ég veit og lærði að lesa í mínum gamla, góða sveitaskóla sem var nú nánast farskóli þegar ég hóf þar nám níu ára gamall í heilar sex vikur fyrsta veturinn. ( Menntmrh.: Bara gildistökugreinin þó . . .  ?) Ég var nú að ræða um gildistökuákvæðin, hæstv. ráðherra, og ég veit ekki betur en það standi til að breyta þeim. Er það ekki rétt, hæstv. ráðherra, að það sé búið að ganga á milli manna blað um hugmyndir um að breyta þeim ( Menntmrh.: Jú. og að fresta þessu öllu saman a.m.k. til áramóta og jafnvel fram undir upphaf skólaárs á næsta ári? ( Menntmrh.: Það er bara rangt.) Það er bara rangt. ( Menntmrh.: Já.) Það á ekkert að breyta því þannig? ( Menntmrh.: Lögin öðlast þegar gildi.) Hæstv. ráðherra, við þurfum ekki að fara í orðaleiki hér. Það sem hér er verið að ræða um eru réttaráhrif lagabreytingarinnar, hvenær tilteknir hlutir koma til framkvæmda. (Gripið fram í.) Auðvitað þarf ekki að segja manni

hér að lög öðlist gildi þegar þau eru afgreidd nema annað sé sérstaklega tekið fram. Reyndar er það þannig að ef ekkert er tekið fram í þessu þá öðlast lög gildi þremur vikum eftir birtingu eins og hæstv. menntmrh. ætti að vita og þarf ekki að vera að reyna að kenna mér þá speki. Ég hef tekið þátt í lagasetningu rétt eins og hæstv. ráðherra um árabil og undirbúið slíka lagasetningu líka í sama hlutverki og hann er í núna.
    Það sem ég var að gera að umtalsefni var verkefnatilflutningur til sveitarfélaganna og ég var að ræða um hvenær hann gengi fram eftir því sem nú væri verið að skoða og ræða og þá er það vonandi á hreinu milli okkar hæstv. ráðherra.
    Eins og ég segi er verið að undirstrika þennan vandræðagang í málinu með þessari skilyrtu gildistöku sem nú er farið að tala um. Í raun og veru er það þannig, hæstv. forseti, að maður fer að spyrja sig að því: Er einhver meining í því að afgreiða lög með skilyrti gildistöku? Og hvar endar það ef menn fara út á þessa braut? Ef þetta og ef hitt verður búið að gerast, þá er þetta í lagi, þá geta þessi lög komið til framkvæmda, annars ekki. Maður sér fyrir sér ýmislegt mjög skrautlegt í framtíðinni ef haldið verður áfram inn á þessa braut. Það verður hægt að fara að setja lög um sjávarútvegsmál sem taka mið af gæftum. Ef gæftir verða góðar á komandi vetrarvertíð, þá er rétt að netabann taki gildi 13. apríl, annars ekki. Hvers konar rugl er þetta? Auðvitað er þetta engin lagasetning.
    Lagasetningin verður að vera almenns eðlis og vera þannig úr garði gerð að hún dugi sem fullnægjandi rammi um þá starfsemi sem í hlut á og að öðru leyti séu mál á höndum framkvæmdarvaldsins til þess að framkvæma. Þess vegna er það að mínu mati alger misskilningur, alger della að vera að taka afgreiðslu á þessum verkefnaflutningi í gegnum þingið núna við þessar aðstæður. Það er bara þráhyggja að baksa með þetta mál áfram við þessar aðstæður. Sveitarfélögin hafa að vísu, þ.e. hluti af stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga, hefur að vísu gert einhverja samþykkt um það að þeir geti látið þetta yfir sig ganga af því að þeir telji að þeir séu það vel valdaðir af þessu skilyrta gildistökuákvæði ef það næði fram að ganga og væntanlega líka vegna þess að sveitarfélögin hafa þrátt fyrir allt það sterka stöðu samkvæmt stjórnskipun landsins sem óháð stjórnsýslustig, varið af stjórnarskrá, sem vonandi verður innan skamms, og varið af alþjóðlegum samningum sem Íslendingar hafa fullnustað um sjálfstæða stöðu sveitarfélaganna sem óháðs stjórnsýslustigs. Staða þeirra er því talsvert önnur gagnvart þessum málum. Sveitarfélögin vita sem er að það verða ekki sett yfir á þau þessi verkefni nema ganga frá samskiptum þeirra við ríkisvaldið um tekjur og annað því um líkt með lögum.
    En því er ekki til að heilsa með kennarastéttina því að hér fer saman meiri hlutinn af löggjafarsamkomunni og framkvæmdarvaldið sem gerir m.a. kjarasamninga við kennarana og það gengur eins og allir vita þessa dagana. Skilja menn ekki að kennarastéttin er óróleg með sína stöðu miðað við þessar aðstæður? Auðvitað. Auðvitað er það eðlileg krafa kennaranna að ekki sé hreyft við þessum málum fyrr en þeirra réttindamál eru komin í höfn og þeir vita að hverju þeir ganga gagnvart sínum nýja vinnuveitenda ef af verður, sveitarfélögunum.
    Ég held líka að það hljóti allir að skilja það sem eitthvað velta því fyrir sér að hér eru svo stór og flókin mál á ferðinni að það er ekki hægt að gefa sér það að mönnum dugi einhverjir mánuðir eða kannski missiri til að ganga frá þeim. Sjá menn t.d. ekki virkilega hvað það er vandasamt mál að ganga frá þeirri breytingu frá því að ríkið eitt sé vinnuveitandi kennaranna með öll þeirra mál, þar með talið t.d. lífeyrisréttindi og hvers konar starfsleg fríðindi sem þeir hafa, og færa það í einu vetfangi yfir á herðar tuga eða reyndar hundruða mismunandi vinnuveitenda sem kennarastéttin fer síðan að semja við á víxl og vinna hjá á víxl? Hvernig ætla menn að ganga frá yfirfærslu réttindanna milli sveitarfélaga þegar kennarar skipta um starf? Hver verður formlega skráður fyrir skyldunum sem snúa að hverjum og einum þegar menn láta af störfum o.s.frv.?
    Það getur vel verið að það sé búið að fara eitthvað ofan í þetta í nefndum og ráðum. Ég hef ekki heyrt um það hér. Ég hef ekki séð tillögur um það hvernig eigi að ganga frá þessu. Og ég vil vita það áður en þetta er gert hvernig eigi að ganga frá málum til að mynda kennara sem hefur starfað mestallan sinn aldur hjá ríkinu, síðan í stórum kaupstað og flyst svo út í lítinn grunnskóla í fámennu sveitarfélagi og lýkur þar sínum starfsaldri á einum til tveimur árum. Er það síðasti vinnuveitandinn sem er ábyrgur? Það koma ótal spurningar af þessu tagi upp í hugann sem mér fyndist að þyrftu að liggja hér fyrir með rækilegum útlistunum og á grundvelli samninga sem búið væri að gera um frágang þessara mála. Eða dettur mönnum það virkilega í hug að það væri hægt að henda fimm þúsund manna stétt milli vinnuveitenda með þessum hætti, með bara einfaldri handauppréttingu á þingi og mál af þessu tagi séu í uppnámi? Ég kalla það að vera í uppnámi þó að menn hrekjist til þess að búa út eitthvert skilyrt gildistökuákvæði sem er bastarður í sjálfu sér hvort sem er í lagasetningarlegu tilliti. Það er allt saman harla dapurlegt, hæstv. forseti, hvernig þessi mál standa.
    Ég vil gera einn þátt enn þessa máls að umtalsefni þó að hann snúi í sjálfu sér kannski ekki beint að þessum tveimur höfuðþáttum, samskiptunum við kennara og sveitarfélögin, og það er spurningin um það hvernig menn ætla að ganga frá ákveðnum grundvallarréttindaþáttum varðandi skólamálin í tengslum við þennan verkaflutning þegar og ef af honum verður. Ég er númer eitt og reyndar númer tvö og þrjú að hugsa um jafnrétti til náms. Ég er að hugsa um jafnrétti til náms í viðtækasta skilningi þess orðs. Hvernig ætla menn að ganga frá því þannig að óyggjandi verði að í framtíðinni verði allir landsmenn eða börn

hvar sem er á landinu, í hvaða sveitarfélagi sem er, strjálbýli sem þéttbýli, jafnsett að þessu leyti? Þau njóti fyllsta jafnréttis í þeim skilningi að þeim standi jafngóður grunnskóli til boða. Hvernig ætla menn að tryggja það ef hinn sameiginlegi sjóður okkar allra, ríkissjóður, er ekki lengur sá sem fer með það verkefni?
    Ég hef verið, eins og margir og flestir sjálfsagt, í grundvallaratriðum hlynntur því að leitað væri leiða til þess að færa verkefni frá ríki til sveitarfélaga í þeim tilvikum að það væri sveitarfélögunum viðráðanlegt og skynsamlegt og að það væru verkefni af því tagi að þau stæðu nærri fólki og það væri eðlilegt að þetta stjórnsýslustig sem næst er fólkinu, sveitarfélögin, sæi um þau. Auðvitað má segja að grunnskólinn sé alveg dæmigerður fyrir slíkt því í velflestum sveitarfélögum landsins, jafnvel niður undir hin smæstu, er rekinn grunnskóli. Það eru jafnvel mörg sveitarfélög í landinu starfandi, 100--200 manna sveitarfélög, þar sem er í raun tiltölulega lítil sameiginleg eða félagsleg starfsemi önnur en sú ein að það er rekinn þar grunnskóli. Ég þekki mörg slík. Það getur verið að mönnum á Stór-Reykjavíkursvæðinu finnist slíkt framandi en það er nú samt satt. Það eru fjölmargir sveitahreppar og jafnvel minnstu sjávarplássin þannig sett að í raun og veru langstærsta sameiginlega rekstrareining fólksins er grunnskólinn. Grunnskólinn er til viðbótar oft eiginleg félagsmiðstöð og samtengipunktur mannlífsins í viðkomandi byggðarlagi fyrir utan kannski kaupfélagið og frystihúsið eða eitthvað því um líkt.
    Þess vegna má segja: Er ekki eðlilegt að sá rekstur sé þá einmitt á höndum sveitarfélaganna sem stendur þeim svona nærri? Jú. En það er ekki þar með sagt að ríkinu megi ekki og eigi ekki að koma það verkefni við. Ég held að ríkinu eigi að gera það. Ég held að ríkið --- og þá er ég að tala um fleira en bara almenna rútínu, menntastefnu og annað því um líkt sem ríkið hafi með höndum --- eigi að vera þátttakandi með vissum skilningi og bakábyrgur aðili í þessum undirstöðuþætti í landinu þar sem er grunnmenntunin. Ég held að ríkið eigi að vera þar og ég hef miklar efasemdir um að þrátt fyrir að gengið verði þannig frá málum að sveitarfélögin yfirtaki grunnskólann í reynd að fullu og öllu hvað framkvæmd snertir, rekstur og ábyrgð, þá eigi ríkið að vera þarna áfram með með tilteknum hætti. Og það sem ég held að ríkið eigi að gera, númer eitt, tvö og þrjú, er að það á tryggja jafnrétti til náms. Ég hef áhyggjur af því, ég hef efasemdir um að vísa því verkefni í einhvern sjóð og segja þá: Það á að vera hérna sjóður sem tryggir jafnrétti til náms eða hvernig sem menn hygðust þá gera það.
    Reynsla annarra þjóða hefur sýnt að það er ástæða til að fara hér varlega. Reynsla frá til að mynda Svíþjóð, Bandaríkjunum og víðar hefur sýnt að það sækir í þá tilhneigingu að gæði skólans verði mismunandi eftir fjárhagslegu bolmagni sveitarfélaganna. Auðvitað. Það liggur í hlutarins eðli að sú hætta er þarna, að þau sveitarfélögin sem veikari eru fjárhagslega neyðist til þess eða jafnvel velji það kaldrifjað að láta tiltekna þætti, jafnvel í viðkvæmum málaflokki eins og skólahaldinu, mæta afgangi. Þau geta einfaldlega ekki annað. Aðstæður þeirra knýja þau til þess.
    Menn geta út af fyrir sig reynt og af góðum vilja, að jafna ýmsa þætti í þessum efnum, en samt sem áður er sú hætta alltaf fyrir hendi að þetta haldi innreið sína í einhverjum myndum í gegnum aðbúnað að skólanum, ef ekki beinlínis í því formi að sveitarfélögin á grundvelli mismunandi getu til að greiða laun eða standa með beinum hætti að rekstrarútgjöldum skólanna sitji uppi með mismikil gæði. Því það er nefnilega margt sem þarna þarf að jafna ef menn ætla að gera það. Það er ekki nóg að horfa á þetta og hugsa: Strjálbýli, þéttbýli, það þarf að jafna þarna einhvern tiltekinn skólaakstur o.s.frv. Það þarf að líta til mjög margs í þessum efnum ef vel á að vera. Og þó að hlutirnir líti ágætlega út hvað snertir daginn í dag þá er ekki víst að svo verði á morgun. Tekjur sveitarfélaganna geta þróast með mismunandi hætti á komandi árum. Við skulum bara taka tvö dæmi: Annars vegar það að það gangi erfiðlega í grundvallaratvinnuvegum landsbyggðarinnar, sjávarútvegi og landbúnaði. Það verði áföll einhvern tíma á komandi árum og sveitarfélögin sem eru með þær greinar neyðist til þess að leggja mikið af mörkum til að halda þar hlutunum gangandi. Annað eins hefur skeð og er þekkt. Sum sveitarfélög á landsbyggðinni eru með gífurlegar byrðar á bakinu frá undangengnum árum, hafandi sett mikla peninga inn í atvinnulífið. Staða þeirra er að sama skapi erfiðari til þess að taka að sér rekstur af þessu tagi. Er það ekki svo? Jú.
    Við getum líka tekið annað dæmi. Við getum tekið það dæmi að það gangi mjög vel á næstu árum í sjávarútvegi og landbúnaði. Það verði uppgangur við sjávarsíðuna á Íslandi en stóru þéttbýlissvæðin sem byggja meira á verslun og þjónustu eigi hins vegar í erfiðleikum og það verði miklir erfiðleikar á komandi árum til að mynda hér í Reykjavík. Þá getur þetta auðvitað snúist við. Það er líka þekkt að skólahaldið gæti orðið mjög erfitt hjá stóru sveitarfélögunum sem byggju jafnvel þrátt fyrir fallandi tekjur við vaxandi fólksfjölgun og eins og stundum vill nú verða svo grimmilegar sem mótsagnirnar eru oft í lífinu þrátt fyrir erfitt atvinnuástand og lækkandi tekjur.
    Ég held að menn þurfi ekki að lesa sér mikið til um eða skoða mikið til að mynda hvað hefur gerst í skólamálum eins og t.d. í Bandaríkjunum til þess að hafa efasemdir í þessum efnum þar sem skólinn er auðvitað gífurlega mismunandi frá því sem verst gerist í sumum fylkjum þar sem er illa rekinn nánast fátækarskóli þar sem menn baksa við að reyna að gera helminginn af nemendunum nokkurn veginn læsan áður en þeir fara úr skólanum. Árangurinn er svona um það bil af því tagi og yfir í fína, flotta einkaskóla og skóla í ríkismannahverfum og ríkismannasveitarfélögum þar sem allir hafa allt til alls í formi hálaunaðra og vel menntaðra kennara, tækjakosts og búnaðar. Auðvitað vita allir sem eitthvað vita hvernig þetta er í hinum hákapitalískustu löndum þar sem skólahaldið hefur verið sniðið að þeim sjónarmiðum, þeim skoðunum. Önnur samfélög sem ekki hafa verið jafn hægri sinnuð í uppbyggingu hafa prófað þetta líka,

að færa skólana yfir á sveitarfélöginn eða hafa hann þar og þeirra reynsla er líka blendin jafnvel hvað þetta snertir. Um það þekkjum við dæmi sums staðar af hinum Norðurlöndunum.
    Langmestu efasemdir mínar, hæstv. forseti, um þennan hreina aðskilnað milli ríkis og sveitarfélaga varðandi málefni grunnskólans, eru sprottnar af áhyggjum mínum af þessum þætti. Ég hef ekki séð það enn þá útfært og frá gengið og enn síður um samið hvernig þessi jöfnunarþáttur verður tryggður. Ég mun aldrei samþykkja fyrirkomulag í skólamálum á Íslandi sem ég hef ástæðu til að ætla eða get óttast að innleiði hér misrétti til náms í þeim skilningi sem ég hef verið að tala um, að börn þeirra sem búa á tilteknum svæðum eða í tilteknum sveitarfélögum á Íslandi standi lakar að vígi gagnvart grunnmenntun en önnur. Auðvitað stenst það heldur ekki þau ákvæði og þær kröfur um jafnræði og jafnrétti þegnanna sem við gerum nú til dags og þá verða menn auðvitað að horfa á það eins og það er og láta skipulagið og uppbygginguna og samskipti stjórnsýslustiganna í landinu taka mið af því að tryggilega sé frá þeim hlutum gengið.
    Hæstv. forseti. Ég er sem sagt þeirrar skoðunar að það sé tímasóun að standa í þessu um þetta frv. Þetta er sýndarmennskuplagg. Þetta er málamyndaafgreiðsla á flutningi grunnskólans til sveitarfélaganna, ef hún gengur fram eins og meiri hlutinn ætlar sér það, alger. Ef þetta yrði með gildistökuákvæði undir upphaf næsta skólaárs, síðsumars 1996, þá verður ný og vonandi og auðvitað miklu betri ríkisstjórn búin að starfa hér í næstum eitt og hálft ár. Hún verður að sjálfsögðu búin að taka þessi mál fyrir löngu í sínar hendur og þess vegna mundi það verka beinlínis hlægilega og hallærislega að fyrir mönnum væri að þvælast eitthvert plagg af þessu tagi sem síðasta ríkisstjórn hefði olnbogað í gegnum þingið á síðustu sólarhringum í andstöðu við allt og alla. Það væri bara algerlega fáránlegt, hæstv. forseti, absúrd, issmus af versta tagi.
    Þannig að það er ekkert annað skynsamlegra að gera heldur en að sætta sig við orðinn hlut, hæstv. menntmrh., og viðurkenna að þetta verk náði ekki fram. Menn verða að láta sig hafa það, taka því eins og hverju öðru hundsbiti, að eitthvað sem þeir hafa verið að baksa og undirbúa nái ekki fram að ganga. Ég get vel skilið hæstv. menntmrh., að hann sé beyglaður yfir þessu. Það er fullkomlega skiljanlegt. Hæstv. ráðherra hefur sjálfsagt bundið við það miklar vonir að þetta yrði eitthvert flagg á hans skipi þegar hann mundi nú binda landfestar eftir fjögurra ára ráðherradóm, en svo ætlar ekki verða. En svona er bara lífið, hæstv. menntmrh. Vonbrigðum af þessu tagi verða menn að taka með karlmennsku. Þetta hefur gerst áður og hefur komið fyrir aðra. Ég gæti sagt pínulítla dæmisögu af svipuðu tagi.
    Það var þannig að á síðasta kjörtímabili var lögð mikil vinna í að endurskoða alla löggjöf um ferðamál á Íslandi. Stór stjórnskipuð nefnd starfaði að því í eitt og hálft ár, reyndar með fulltrúum allra flokka innan borðs, því þá var sú ríkisstjórn við völd í landinu og sá meiri hluti hér, sem vildi hafa pólitískt samráð um hlutina. Því var ekki að heilsa í 18 manna nefndinni frægu eða 17+1 nefndinni, það voru 17 sjálfstæðismenn og einn krati að sagt var og 17 af Reykjavíkursvæðinu en einn af landsbyggðinni. Menn vissu nú ekki alveg hvor formúlan hafði ráðið þessari nafngift. En út úr þessari stjórnskipuðu nefnd sem ég var að nefna og vann að endurskoðun heildarlöggjafar um ferðamál, kom mjög gott frv. sem var pólitísk samstaða um og var skrifað undir það m.a. af þáv. hv. þm. Sjálfstfl. Friðjóni Þórðarsyni. Málið kom hér inn á þing tímanlega, hafði tvo mánuði til stefnu, ef ekki þrjá, náði afgreiðslu í neðri deild sálugu og kom upp í efri deild og var þar einmitt við ekkert ósvipaðar aðstæður og hér eru nú í þinginu. Það voru 1--2 sólarhringar eftir. En þá reis þar upp maður, núv. hæstv. landbrh. og samgrh., Halldór nokkur Blöndal, hv. þm., hæstv. ráðherra, og hann stoppaði þetta mál. Hann braust um á hæl og hnakka í ræðustólnum með allmiklum hávaða og fyrirgangi og lét hvorki laust né fast fyrr en menn gáfu það eftir að þetta mál yrði ekki afgreitt á því þingi. Þarna fór í súginn mikil vinna og mikið starf margra manna og allmikill kostnaður sem hið opinbera hafði lagt í það ásamt ýmsum hagsmunaaðilum í ferðaþjónustu að endurskoða þessa löggjöf. Þarna var ekki til að dreifa að vísu miklum pólitískum ágreiningi og enn síður faglegum, því að málið var stutt af öllum helstu hagsmunaaðilum í ferðaþjónustu. Samt fór það svo að þetta mál varð bara einfaldlega að bíða. Það var bölvað, mér þótti það auðvitað bölvað, en ég tók því náttúrlega bara af karlmennsku eins og hverju öðru hundsbiti. Það var ekkert annað að gera. Það þýddi ekkert að væla yfir því. Og hollráð mín til hæstv. menntmrh. er að gera slíkt hið sama núna með þetta grunnskólafrv., taka því eins og hverju öðru hundsbiti að málið er í uppnámi og nær hér ekki fram að ganga, enda tilgangslaust með öllu og sýndarmennskan ein að vera að nudda á afgreiðslu þess nú.
    Hæstv. forseti. Ég segi við hæstv. menntmrh.: Tak sæng þína og gakk, far inn í Karphús eða Rúgbrauðsgerð og reyndu að fá félaga þinn og flokksbróður, hæstv. fjmrh., til þess að koma í gang samningaviðræðum með þér við kennara.