Grunnskóli

105. fundur
Föstudaginn 24. febrúar 1995, kl. 11:14:38 (4922)


[11:14]
     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) (andsvar) :
    Herra forseti. Það fer svo sem ekki fram hjá mér að það á að reyna að koma í veg fyrir samþykkt þessa frv. með málþófi. Það sáum við hér sl. nótt. En rökin fyrir því að við eigum að draga frv. til baka eða hætta við það eru fyrst og fremst þau að mati hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar að málið sé umdeilt innan þings og utan og þess vegna eigi að hætta við það. Minni hlutinn eigi sem sagt að ráða.
    Þá nefnir hann að víðtækt samkomulag hafi orðið vorið 1991 um grunnskólalög og þess vegna eigi ekkert að hreyfa við þeim. Þetta er auðvitað alveg í samræmi við þá stefnu Alþb. sem hefur verið ítrekuð alveg nýlega, að lögin frá 1991 eiga að standa. Með því er Alþb. að tilkynna að það muni ekki verða við neinum kröfum og óskum sveitarfélaganna um að grunnskólinn verði endanlega fluttur yfir til sveitarfélaganna. Það er út af fyrir sig verðmæt vitneskja.
    Þar fyrir utan nefnir hv. þm. að þetta sé alveg ómögulegur tími til þess að afgreiða grunnskólalög vegna þess að verkfall kennara standi yfir. Það liggja fyrir yfirlýsingar kennara um það að þetta frv. hafi engin áhrif haft á afstöðu þeirra til verkfallsins. Það er hins vegar komið upp allt í einu núna í viðræðum kennara við samninganefnd ríkisins að lífeyrisréttindi þeirra séu óljós samkvæmt þessu frv.
    Þá nefndi hv. þm. að ekkert lægi á þessu vegna þess að lögin ættu ekki að öðlast gildi fyrr en 1. ágúst 1996. Þetta er rangt. Lögin öðlast gildi þegar í stað eins og venjan er og er beint ákvæði um það í gildistökuákvæðinu. Það er hins vegar skilyrt og lögin koma ekki að fullu til framkvæmda fyrr en 1. ágúst 1996, þ.e. þá fyrst verða kennararnir starfsmenn sveitarfélaga.
    Þá nefndi hv. þm. að hann gæti ekki samþykkt þetta vegna þess að hann teldi að með frv. væri ekki tryggt jafnrétti til náms. Ég fullyrði að í þessu frv. eru betri tryggingar fyrir jafnrétti til náms heldur en eru í gildandi lögum.