Grunnskóli

105. fundur
Föstudaginn 24. febrúar 1995, kl. 11:17:11 (4923)


[11:17]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Hæstv. menntmrh. er allt of taugatrekktur að kalla eðlilegar umræður um þetta mál málþóf. Þó að áhugamenn tali um þennan málaflokk í 20--30 mínútur um þetta mál þá er það náttúrlega fullkomlega eðlilegur hlutur. Hér er stórt mál á ferð og eðlilegt að menn láti sig það varða og vonandi fagnar hæstv. ráðherra því að menn hafi áhuga á hans málaflokki. (Gripið fram í.) Ég held að hv. þm. Árni Johnsen ætti ekki að vera að hafa hátt í þingsalnum um þetta mál, það fer ekki vel á því. ( ÁJ: Hann þarf að læra á klukku, þingmaðurinn.) Mér sýnist nú að hv. þm. Árna Johnsen hafi gengið illa að mæta samkvæmt klukku í þingsalnum yfirleitt þannig að það má nú deila um það hverjir kunna best á klukku hér.
    (Forseti ( StB): Ekki samtöl.)
    Ég óska eftir því að hæstv. menntmrh. fari ekki rangt með það sem ég var að segja hér. Ég sagði ekki að það ætti að fresta þessu bara vegna þess að þetta væri umdeilt mál, ég sagði líka að það væri vegna þess að það væri illa undirbúið, þetta mál væri í raun og veru í upplausn og það þjónaði engum tilgangi að afgreiða það. Það eru margvísleg rök, hæstv. ráðherra, fyrir því að það eru engin efni til að afgreiða þetta mál. Þau eru fjöldamörg og mörg fleiri en þau ein að efni þess, innihald, sé umdeilt.
    Ég þakka auðvitað hæstv. menntmrh. fyrir að vekja athygli á menntastefnu Alþb. Það er til mikillar fyrirmyndar. Við afgreiddum mjög viðamikla skólamálastefnu á miðstjórnarfundi sl. haust og hún er ítrekuð í nokkrum lykilatriðum hér í okkar 10 stefnupunktum fyrir kosningarnar. Það er alveg rétt að við höldum því þar til haga að grunnskólalögin frá 1991 þurfi að komast til framkvæmda. Og af hverju er það? Það er af því að núv. ríkisstjórn hefur algerlega svikið það að láta framfaramálin sem þar var gengið frá koma til framkvæmda. En það segir ekkert um það að Alþb. mun áfram reka opna, víðsýna og framsækna skólamálastefnu og er að sjálfsögðu tilbúið til viðræðna við sveitarfélögin um m.a. flutning verkefnisins til þeirra og mun örugglega fara í slíkar viðræður strax eftir kosningar þegar við verðum búnir að mynda hérna almennilega ríkisstjórn.