Grunnskóli

105. fundur
Föstudaginn 24. febrúar 1995, kl. 11:19:28 (4924)


[11:19]
     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) (andsvar) :
    Herra forseti. Það er rangt að þetta mál sé illa undirbúið og það er margbúið að rekja það hvernig staðið hefur verið að þessu máli í umræðum á hv. Alþingi. Ég fullyrði það, ég hef gert það áður og ítreka það enn og aftur, að ekkert frv. sem lagt hefur verið fyrir þetta þing hefur fengið annan eins undirbúning og aðra eins umræðu og þetta, ekkert. Það er beinlínis rangt þegar hv. þm. er að halda því fram í ræðustól á Alþingi að þetta mál sé illa undirbúið. Það var kynnt þegar í áfangaskýrslu menntastefnunefndar, það var sent til umsagnar eins og menntastefnunefnd gekk frá því, það var sent til umsagnar eftir að það varð að þingskjali og allir þeir aðilar sem við þessa löggjöf eiga að búa hafa haft tækifæri til þess að tjá sig. Fjölmörg atriði hafa verið tekin til greina um það sem betur mátti fara og ég segi enn og aftur: Ekkert mál sem hefur verið lagt fyrir þetta þing hefur fengið annan eins undirbúning og umræðu.