Grunnskóli

105. fundur
Föstudaginn 24. febrúar 1995, kl. 11:20:29 (4925)


[11:20]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég stend við það að mál sem er grenjandi ágreiningur um og mál þar sem engin niðurstaða hefur fengist gagnvart lykilþáttum eins og verkefnaflutningnum, samningi við kennara og sveitarfélög, er illa undirbúið. Það getur vel verið að hæstv. menntmrh. geti haldið því til haga að þetta mál sé vel undirbúið í Sjálfstfl. og ágætlega undirbúið í þeirri þröngu nefnd stjórnarflokkanna sem vann að því og að frv. sem frv. sé þokkalega undirbúið, að þetta sé á sæmilegu íslensku máli o.s.frv. En varðandi þessa lykilefnisþætti málsins, flutning grunnskólans til sveitarfélaganna, frágang á réttindamálum kennara og samskipta við sveitarfélögin, þá er málið illa undirbúið af því að það er engin niðurstaða í neinum af þessum þáttum. Það liggur fyrir. Nefndir þær sem seint og um síðir komust á lappirnar til að vinna þau mál hafa engri niðurstöðu skilað. Það er ekki hægt að kalla það annað en réttu nafni: Lélegan undirbúning.