Grunnskóli

105. fundur
Föstudaginn 24. febrúar 1995, kl. 11:25:52 (4929)


[11:25]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það væri karlmennskulega gert að halda því fram að samskiptin væru góð a.m.k., er það ekki? Ég held að hv. þm. meiri hlutans viðurkenni í raun stöðuna með þessu ankannalega skilyrta

gildistökuákvæði. Það segir í raun og veru allt sem segja þarf um tilgangsleysi og fáránleika þess að vera að afgreiða frv. við þessar aðstæður. Þetta er afar óvenjulegur frágangur á einu lagafrv., að opinbera það í vinnunni á þingi með því að flytja skilyrt gildistökuákvæði af þessu tagi að málið sé í uppnámi, það geti ekki náð fram að ganga, þetta sé ekki hægt nema þetta og hitt gerist á næstu vikum og mánuðum. Þetta væri eins og menn settu löggjöf í sjávarútvegsmálum um það að netaveiðibann skyldi sett 15. apríl á næsta ári ef vetrarvertíðin yrði góð og tíðin almennt andstæð. Eitthvað af þessu tagi er auðvitað út í loftið og það væri langhreinlegast og heppilegast fyrir meiri hlutann að viðurkenna það að þeir hafa klúðrað þessu máli.