Grunnskóli

105. fundur
Föstudaginn 24. febrúar 1995, kl. 11:28:59 (4931)


[11:28]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Skólarnir í Bandaríkjunum eru örugglega nokkurn veginn eins misjafnir og þeir eru margir og sumir góðir þó þeir séu ekki í ríkra manna hverfum. En því miður er almennt og alþjóðlega, held ég, viðurkennd sú tilhneiging að efnahagur foreldra og hverfi skipta þar líka miklu máli.
    Hv. þm. telur að við séum að leggjast gegn frv. sem feli í sér stórkostlegar umbætur og stórauknar fjárveitingar til skólamála. Heyr á endemi! Það er ekkert í þessu frv. sem gefur neinar tryggingar fyrir slíku. Það sem menn horfa á er frammistaðan sl. fjögur ár, það er niðurskurðurinn á gildandi skólalögum, það er sú staðreynd að þessi ríkisstjórn hefur frestað hverju einasta umbótaákvæði í skólamálum hvert einasta ár sem hún hefur setið. Og er það þá trúverðugt að koma með plagg af þessu tagi og blása sig út af því að í því muni felast stórkostlegar framfarir í skólamálum á komandi tímum, á kostnað sveitarfélaganna þá eða hvað? Þetta er náttúrlega ekki trúverðugur málflutningur, hæstv. forseti. (Gripið fram í.) Það eru fjárlög þessarar ríkisstjórnar, það eru bandormar hennar sl. fjögur ár sem segja allt sem segja þarf um stefnu þessarar ríkisstjórnar í menntamálum. Það eru verkin sem sýna merkin en ekki einhver fögur áform á blaði í sýndarmennskufrumvörpum nokkrum vikum fyrir kosningar. Hv. þm. fær ekki nokkurn skólamann í landinu til þess að taka það inn í einkunnagjöfina þegar núv. ríkisstjórn verður tekin í próf. Ekki nokkurn skólamann. Menn kunna að prófa. Menn taka það sem er skrifað á blöðin en ekki eitthvað sem er skrifað í skýin í framtíðinni. Það mun standa eftir hvað sem verður um þetta nöturlega plagg, svo ég taki mér það orð í munn sem ég gæti hafa innleitt hér í þingsali, það verða verkin, það verður frammistaða ríkisstjórnarinnar á þessum fjórum árum sem mun leggja grunninn að hennar einkunnum í skólamálum.