Grunnskóli

105. fundur
Föstudaginn 24. febrúar 1995, kl. 11:46:13 (4933)

[11:46]
     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) (andsvar) :
    Herra forseti. Ég ætla aðeins að rifja upp örfá orð úr ræðu hv. þm. Páls Péturssonar þegar málið var til 1. umr. 1. nóv. sl. og það geri ég vegna orða hans um að það sé þýðingarlaust og reyndar óviturlegt að afgreiða málið, í því séu allt of margir lausir endar. Síðan gerði hann 57. gr. að sérstöku umræðuefni. Hv. þm. sagði, með leyfi hæstv. forseta, við 1. umr. málsins:
    ,,Mér sýnist að það sé alveg fyrirsjáanlegt að það verði að breyta gildistökuákvæðinu í 57. gr.`` --- Þetta höfum við einmitt verið að gera. Síðan bætti hv. þm. við: ,,Hins vegar er skynsamlegt að lögleiða ákveðinn hluta frv. og kannski mest allt frv. þannig að menn viti að hverju þeir ganga og afgreiða frv. með einhverjum hætti með sveigjanlegri gildistökugrein þannig að gildistaka ákvarðist á Alþingi þegar allir endar hafa verið hnýttir og yfirfærslan færi þá fram.``
    Það er nákvæmlega þetta sem við höfum verið að gera við meðferð frv. Ég met það við hv. þm. að hafa komið með þessa tillögu við 1. umr. frv. Eftir henni hefur verið farið í einu og öllu.