Grunnskóli

105. fundur
Föstudaginn 24. febrúar 1995, kl. 11:48:10 (4935)


[11:48]
     Tómas Ingi Olrich (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. Páll Pétursson gerði rétt eina ferðina lítið úr starfi þeirrar nefndar sem hæstv. menntmrh. skipaði hinn 24. mars 1992 til að endurskoða lög um grunn- og framhaldsskóla og mótun menntastefnu. Þessi nefnd hafði það hlutverk m.a. að skoða heildstætt grunnskólalög og framhaldsskólalög. Það hafði ekki verið gert fyrr að taka þessi mál til heildarendurskoðunar og sá sem hér stendur, gamall framhaldsskólakennari sem kenndi í 20 ár, kannast mjög vel við það hversu brýnt var að taka þessi mál til endurskoðunar í heild.
    Ég vil taka að fram að það er með öllu ósæmilegt að draga í efa hæfileika þeirra einstaklinga sem skipuðu þessa nefnd og það gengur ekki að reyna að skapa tortryggni um störf nefndarinnar, ekki síst í ljósi þess sem hún skilaði frá sér. Innan þessarar nefndar var víðtæk þekking á málefnum framhaldsskólans, víðtæk þekking á málefnum grunnskólans og sveitarstjórna og atvinnulífsins. Ég nefni hér nokkur nöfn í þessari nefnd. Ég gæti lesið upp alla. Ég nefni þar Sigríði Önnu Þórðardóttur, formann nefndarinnar, kennara með þekkingu á málefnum grunnskólans. Ég nefni Árna Sigfússon borgarfulltrúa, sem þá var formaður skólamálaráðs Reykjavíkurborgar. Ég nefni Björn Búa Jónsson framhaldsskólakennara með mikla þekkingu á því skólastigi. Ég nefni Björn L. Halldórsson lögfræðing sem var forstöðumaður skólamálaskrifstofu Reykjavíkurborgar. Ég nefni Þorleif Jónsson, viðskiptafræðing hjá Samtökum iðnaðarins. Ég nefni hann sérstaklega vegna þess að það tókst að ná inn í frv. um framhaldsskólann, sem ber að skoða í tengslum við grunnskólafrv., mjög mikilvægum ákvæðum sem snerta starfsmenntun. Ég gæti nefnt alla nefndarmenn til að styrkja þá skoðun mína og þá fullyrðingu mína að þessi mál hafa verið í góðum höndum og verkið beri þeim vitni.