Grunnskóli

105. fundur
Föstudaginn 24. febrúar 1995, kl. 11:53:10 (4939)


[11:53]
     Petrína Baldursdóttir (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það er ekki oft sem ég er sammála málflutningi hv. þm. Páls Péturssonar á Alþingi, það hefur ekki oft komið fyrir. En ég verð að lýsa því yfir hér að hann komst að kjarna málsins áðan þegar hann ræddi um varðandi þetta frv. að það sem mestu máli skiptir, það sem er aðalatriðið í þessu máli sem hér er til umræðu, eru börnin. Ég verð að segja það að þetta er það vitrænasta sem hefur komið úr þessum ræðustóli frá því að þingfundur hófst klukkan hálfellefu. Það er kjarni málsins. Það eru börnin.
    Hv. þm. notaði líkingamál í umræðunni áðan. Hann talaði um fæðingu ófullburða barns. Hann ræddi um getnað, meðgöngu frv. og fæðingu fyrir tímann. Þetta var líkingamál sem þingmaðurinn notaði. Ég vil þess vegna halda mig aðeins við þetta líkingamál þingmannsins og spyrja hann: Hefur hann einhvern tímann heyrt um barn sem fæddist fyrir tímann og það hafi spjarað sig vel í lífinu? Er þingmaðurinn tilbúinn að fullyrða það í ræðustól að ófullburða barn geti ekki spjarað sig? Þetta er í samræmi við það líkingamál sem hann notaði í þessum ræðustól.