Grunnskóli

105. fundur
Föstudaginn 24. febrúar 1995, kl. 11:56:45 (4943)


[11:56]
     Frsm. 1. minni hluta menntmn. (Kristín Ástgeirsdóttir) :
    Hæstv. forseti. Það er ánægjulegt að það skuli vera létt yfir þingmönnum en mér er sannast að segja ekki hlátur í hug. Það hefur verið ömurlegt vægast sagt að fylgjast með vinnubrögðum meiri hlutans á hinu háa Alþingi á undanförnum dögum og sá fundur sem við héldum í menntmn. í gær þar sem þetta mál var endanlega tekið út úr nefndinni með þeim brtt. sem nú liggja fyrir var mjög merkilegur. Þar var lesið yfir okkur stjórnarandstæðingum um alþingi götunnar og það hvernig samtök úti í bæ væru farin að stjórna lagasetningu á hinu háa Alþingi. Þar var auðvitað átt við kennara.
    Þetta eru merkilegar yfirlýsingar hjá meiri hlutanum miðað við þau vinnubrögð sem tíðkast hafa á Alþingi sem er að mörgu leyti mjög opin stofnun og sendir öll sín mál til umsagnar, leitar til þeirra sem málið snertir, býður þeim að koma með athugasemdir og tekur iðulega tillit til þeirra athugasemda.
    Það var t.d. verið að segja frá því í fréttum í morgun að samgn. hefði verið að breyta ákveðnu frv. sem snertir sjómenn. Samgn. varð við athugasemdum sjómanna. Er það alþingi götunnar? Er það alþingi götunnar þegar aðilar vinnumarkaðarins koma hér á nefndarfundi eða láta í ljós álit sitt úti í bæ?
    Þetta eru þvílíkar yfirlýsingar hjá hv. þm. meiri hlutans að við þær verður ekki unað. Það er nefnilega staðreynd að í þessu frv. hefur ekkert tillit verið tekið til sjónarmiða kennara, hvort sem þau snúa að efnisinntaki frv. eða því stóra atriði sem hér er meginmál sem eru réttindamál kennara.
    Það hefur staðið verkfall í heila viku og ef menn hafa lesið Morgunblaðið í morgun þá er það alveg ljóst --- ekki lýgur Mogginn --- að samningaviðræður stranda núna á þessu frv. Það er svo undarlegt að hæstv. menntmrh. og ég held kannski fleiri sem tilheyra núv. meiri hluta á Alþingi virðast alls ekki skilja þessi tengsl. Þeir virðast alls ekki skilja það að þær samningaviðræður sem nú standa yfir að þær snerta þetta frv. Það virðist enginn skilningur vera á því. Því er haldið fram að það sé verið að blanda saman óskyldum málum og sú breyting sem þetta frv. felur í sér komi kjarasamningunum ekkert við. En það vill svo til að það er verið að semja til lengri tíma. Eða er það meining ríkisstjórnarinnar að semja til nokkurra mánaða við kennara? Er það meiningin meðan búið er að semja til tveggja ára á almennum vinnumarkaði? Það er strax eftir ár sem þarf að semja við kennara um þennan flutning. Það þarf að semja þá við kennara sem munu byrja að vinna hjá sveitarfélögunum. Er þá skynsamlegt að standa þannig að verki að gera einhverja bráðabirgðasamninga nú og fara svo í það verk aftur þegar ríkisstjórninni þóknast að hafa það á hreinu hvað felst í þessum flutningi og hvernig réttindamálum kennara muni hagað?
    Það sem þetta mál snýst um er hvaða kjarasamningar verða í gildi þegar þessi tilflutningur á sér stað. Hver verða ráðningarkjörin? Hvað verður um lífeyrisréttindi kennara? Hvað verður t.d. um 95 ára regluna? Ef menn ekki þekkja hana þá er hún enn í gildi hjá allnokkrum hópi ríkisstarfsmanna sem þýðir það að fólk getur hætt störfum þegar samanlagður lífaldur og starfsaldur er 95 ár. Þetta er ekki síst kennurum mjög mikilvægt og reyndar öllu skólastarfi að það geti átt sér stað endurnýjun á kennaraliðinu því að þeir sem hafa fengist við kennslu vita að það er ákaflega krefjandi starf og það er erfitt að halda sér við sem góður kennari áratugum saman. Hvað verður um þessi réttindi? Það er mjög skiljanlegt að kennarar vilji fá að vita það áður en þessar lagabreytingar ná fram að ganga. Staðreyndin er auðvitað sú að þetta eru léleg vinnubrögð af hálfu ríkisstjórnarmeirihlutans. Þetta eru fráleit vinnubrögð, að vera að ætlast til þess að Alþingi samþykki grundvallarbreytingar á íslenska skólakerfinu án þess að það liggi fyrir hvað þær kosta, hvað þær þýða fyrir sveitarfélögin og hvernig verður haldið á réttindamálum kennara. Ég get samþykkt það út af fyrir sig að fyrst þarf að samþykkja lögin, síðan réttindamálin og loks tekjustofnafrv. sveitarfélaganna. Það er hinn eðlilegi gangur. En að menn ætli sér það að það líði hugsanlega eitt til eitt og hálft ár þarna á milli er fráleitt. Að sjálfsögðu verða menn að vita hvað þetta frv. felur í sér og þess vegna á að fresta afgreiðslu þessa máls.
    Ég held að ég geti fullyrt að það er mikill vilji til þess að taka á ýmsum vandamálum skólakerfisins eins og ég rakti í fyrstu ræðu minni við þessa umræðu. Það er vilji til þess. Það er vilji til þess að færa grunnskólana yfir til sveitarfélaganna. Sveitarfélögin hafa sjálf samþykkt það. Það eru að vísu miklar efasemdir víða, m.a. hjá kennurum, en almennt held ég að við getum fullyrt að það sé orðin nokkuð viðtekin skoðun að þessi flutningur muni eiga sér stað. Þess vegna held ég að hæstv. menntmrh. og hans helstu stuðningsmenn á hinu háa Alþingi þurfi ekki að hafa svo miklar áhyggjur af þessu máli, enda snýst þetta fyrst og fremst um það að hæstv. menntmrh. geti veifað þessu frv., þessum lögum í kosningabaráttunni. Málið snýst ekki um neitt annað og hann er tilbúinn til þess að setja kjarasamninga og skólastarf í landinu í uppnám og hafa það í uppnámi vikum saman bara til þess að ná þessu frv. fram. Ég fullyrði það vegna þess að við höfum setið hér á fundum og við áttum fund fyrir þremur kvöldum síðan með hæstv. menntmrh. þar sem ekki mátti skilja niðurstöðu fundarins öðruvísi en svo að það ætti að reyna að ná samkomulagi, það ætti að reyna að setja saman yfirlýsingu sem við gætum hugsanlega öll staðið að um réttindamál kennara og sem þá yrði ásættanlegt plagg fyrir kennara eða alla vega þannig að þeir gætu sætt sig við það. Það hefur ekki sést orð á blaði, ekkert. Það hefur ekkert verið við okkur talað aftur, það hefur ekkert verið talað við kennara, ekkert.
    Ég hafði samband við formann Hins íslenska kennarafélags fyrir um það bil klukkustund síðan, það hefur ekkert verið talað við kennara. Það hefur enginn samningafundur verið haldinn í meira en sólarhring, hann slitnaði þegar þær fréttir bárust í gær að Samband ísl. sveitarfélaga sætti sig nú við frv. og það

verður væntanlega fundur í dag. En á meðan þetta mál hangir eins og fallöxi yfir þessum samningaviðræðum þá gerist ekki neitt. Og haldið þið, hv. þingmenn og hæstv. menntmrh., að samþykkt þessa frv. muni liðka fyrir kjarasamningum? Halda menn að þetta muni liðka fyrir kjarasamningum? Ég held því miður ekki. Og í alvöru, hæstv. menntmrh., eigum við ekki að setjast niður og gera tilraun til þess að reyna að komast að samkomulagi um afgreiðslu þessa máls og það hvernig verði staðið að réttindamálum kennara?
    Ég get tekið undir það að við getum ekki hér á Alþingi bundið hendur sveitarfélaganna um það hvernig þau munu haga sínum ráðningarmálum þegar þar að kemur, við getum það ekki. En við getum heitið því að réttindi kennara muni ekki skerðast, þeirra sem eru ráðnir kennarar, og við getum heitið því að beita okkur fyrir því að réttindi þeirra sem ráðnir verða eftir að sveitarfélögin taka við skerðist ekki. Það eru ýmsir möguleikar til í stöðunni, að fólk geti valið um lífeyrissjóði o.s.frv. og auðvitað að það sé tryggt að fólk verði ekki svipt 95 ára reglunni. Það eru ýmsir möguleikar í stöðunni og okkur ber skylda til þess að reyna að leita eftir samkomulagi í stað þess að reyna að þrýsta þessu frv. hér í gegn algerlega í blóra við þá sem eiga síðan að vinna eftir þessum lögum. Fólk á að vinna eftir þessum lögum. Hvaða áhrif haldið þið, hv. þm., að það hafi á skólastarfi á næstu mánuðum ef þessi lög verða þvinguð í gegn gersamlega þvert á vilja kennara?
    Við hv. þm. Tómas Ingi Olrich og Sigríður Anna Þórðardóttir höfum gengið í gegnum sex vikna verkfall kennara, sem hluti af BHMR, og við vitum öll hvaða áhrif það og síðan bráðabirgðalögin höfðu á skólastarf í landinu. Það hefur verið rakið í þessari umræðu. Hér er verið að endurtaka þann leik. Það er verið að endurtaka leikinn. Það á að þvinga kennara inn í ferli sem þeir eru ósáttir við og ég fullyrði að þetta muni hafa alvarleg áhrif á skólastarf, alvarleg áhrif.
    Ég vil koma að samþykkt Sambands ísl. sveitarfélaga og það er afar sérkennilegt mál, afar sérkennilegt, svo að ekki sé meira sagt. Trekk í trekk hefur Samband ísl. sveitarfélaga sent okkur bréf þar sem fyrirvarar Sambandsins hafa verið ítrekaðir og þeir eru margir. Ég vil leyfa mér að lesa upp úr bréfi sem var skrifað 14. feb. Nú er að ég held líklega 24. feb., sólarhringarnir eru að verða svo samfelldir hér að maður er hættur að vita mun dags og nætur. En í þessu bréfi frá 14. feb. segir Samband ísl. sveitarfélaga, með leyfi forseta:
    ,,Stjórn sambandsins telur að heppilegra hefði verið að sameiginleg undirbúningsvinna ríkis, sveitarfélaga og samtaka kennara vegna yfirfærslu alls grunnskólakostnaðar frá ríki til sveitarfélaga væri að mestu lokið áður en lög um grunnskóla eru samþykkt.`` --- Að mestu lokið. Síðan segir hér í bréfinu:
    ,,Á 15. landsþingi sambandsins, sem haldið var á Akureyri 31. ágúst til 2. sept. 1994, var samþykkt samhljóða að rétt væri að fela sveitarfélögunum að fullu rekstur grunnskólans. Landsþingið hafði þó skýra fyrirvara á þessari afstöðu, þ.e. að fullt samkomulag næðist milli ríkis og sveitarfélaga varðandi flutning tekjustofna til sveitarfélaganna til að standa undir þeim kostnaði er yfirtökunni fylgir. Enn fremur að samkomulag næðist milli ríkis, sveitarfélaga og stéttarfélaga kennara um kjara- og réttindamál kennara, þar með talin meðferð lífeyrisréttinda. Það hefur ávallt verið afstaða stjórnar sambandsins að niðurstaða í þessum málum þyrfti að liggja fyrir áður en ný grunnskólalög yrðu samþykkt.``
    Þetta var áréttað hér í bréfi og í framhaldi af þessu lagði Samband ísl. sveitarfélaga fram ákveðnar breytingartillögur sem ekki var gengið að nema að hluta til. Síðan gerist það að boðaður er fundur í menntmn. á miðvikudagskvöldið og þar kemur fram að fulltrúar Sambands ísl. sveitarfélaga ættu að mæta á þann fund. Það var sem sagt búið að boða fund með þeim áður en það hafði verið borið upp í stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga hvort einhver breyting hefði orðið á afstöðu. Hvað áttu þeir að segja þegar ákveðið var að boða með þeim fund? Síðan gerist það að fulltrúar Sambands ísl. sveitarfélaga, formaður þess og framkvæmdastjóri, mæta á fund nefndarinnar og lýsa því þar að þeir telji að þær brtt. sem meiri hluti menntmn. hefur lagt fram séu fullnægjandi. Það segir í bréfi þeirra, með leyfi forseta:
    ,,Samband ísl. sveitarfélaga telur að þó ekki hafi verið komið til móts við allar breytingartillögur í þessu frv. þá séu nýjar breytingartillögur frá meiri hluta menntmn. til verulegra bóta.
    Að teknu tilliti til þessara breytingartillagna frá meiri hluta menntmn. Alþingis getur Samband ísl. sveitarfélaga fallist á að frv. verði samþykkt á yfirstandandi þingi, enda beri ríkið kostnaðarauka er leiðir af gildistöku einstakra greina frv. fyrir 1. ágúst 1996, sem ákveðinn verður í reglugerð er menntmrh. setur, sbr. 57. gr.``
    Það kom síðan í ljós að ýmsir þeir sem sitja í stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga höfðu ekki hugmynd um þessa samþykkt. Það var hringt t.d. í annan fulltrúa Reykjavíkurborgar kl. 11 eftir að fulltrúar Sambands ísl. sveitarfélaga voru farnir af fundi menntmn. Þá fyrst fékk hún að vita um þessa samþykkt. Þannig að það vaknar nú sú spurning, hvað liggur hér á bak við þessa samþykkt? Hverjir standa að henni og er þetta einróma niðurstaða stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga?
    Það er alveg ljóst að með þessu hefur Samband ísl. sveitarfélaga breytt sinni afstöðu og stendur ekki lengur með kennurum í þessu máli því það er auðvitað staðreynd málsins að sú brtt. sem hér liggur fyrir varðandi 57. gr. um fyrirvarana er ekki fullnægjandi fyrir kennara. Hún er það ekki. Það má auðvitað um það deila hversu ítarleg lagagreinin eigi að vera, en ég ítreka það sem ég hef hér sagt, að það er vilji til þess að reyna að ná samkomulagi um einhvers konar yfirlýsingu sem geti tryggt framgang þessa máls og sátt sem gæti leitt til þess að skriður kæmist á viðræður milli ríkisins og kennara því að það gengur ekki að skólastarf verði lamað mikið lengur.

    Við fyrri hluta þessarar 2. umr., eða fyrsta hluta, kom ýmislegt fram í máli hæstv. menntmrh. og formanns menntmn., hv. þm. Sigríðar Önnu Þórðardóttur, og Tómasar Inga Olrich og það er ástæða til þess að svara ýmsu sem kom fram í þeirra máli. Ég hef reyndar komið áður að þessu skilningsleysi ráðherrans á því hvernig kjarasamningar kennara tengjast þessu máli, en það er önnur hlið sem mig langar að koma hér betur inn á og það er kostnaðurinn við þessar breytingar.
    Hæstv. menntmrh. hélt því fram að það væri ekki meiri umframkostnaður en getið er um í greinargerð með frv. Í þeirri greinargerð er t.d. ekki farið út í það hvað það kostar að einsetja grunnskólana og í þessu frv. segir að grunnskólar skuli vera einsetnir. Í núgildandi lögum segir að stefnt skuli að einsetningu grunnskóla. Það er mjög mikill munur á þessu. Að vísu á þetta að gerast í áföngum. Sveitarfélögin hafa sex ár til þess að ná þessu fram, en þetta þýðir mjög mikinn kostnað fyrir sveitarfélögin, það er alveg ljóst. ( Menntmrh.: Hvort þykir þingmanninum betra? Hvort ákvæðið?) Ég er ekki að gagnrýna það. Ég vil að sjálfsögðu að skólarnir verði einsetnir, það er ekki það sem málið snýst um, heldur það að hæstv. menntmrh. viðurkenni það að þetta er mikill kostnaður fyrir sveitarfélögin. Þetta kostar milljarða í Reykjavík. Auðvitað þarf þetta að gerast í áföngum, en menn verða bara að gera sér grein fyrir að þær breytingar sem stefnt er að með þessu frv. kosta peninga. Það er bara ósköp einfalt mál. Þær kosta peninga. Og það er m.a. hluti af þeim sterku fyrirvörum sem Samband ísl. sveitarfélaga hefur haft við þetta mál, að þetta kostar allt saman peninga og ef á framkvæma lögin almennilega þá kallar það á mjög aukna og bætta þjónustu í grunnskólunum, þjónustu sem ríkið hefur ekki treyst sér til þess að koma á fót og bæta heldur hefur verið stanslaus niðurskurður til skólakerfisins á þessu kjörtímabili.
    Önnur fullyrðing sem hér kemur fram hvað eftir annað hjá hv. formanni menntmn. er að það sé lítill efnislegur ágreiningur um þetta mál. Það sé í raun nánast samstaða um málið efnislega og menn séu að hengja sig í næstum því smáatriði og af einhverjum undarlegum ástæðum sé verið að reyna að setja þessu máli stólinn fyrir dyrnar. En þetta er bara ekki rétt og þó ég geti sagt það enn einu sinni að ég er sammála mörgu í þessu frv. þá vil ég þó nefna það enn einu sinni að við fengum í hendur plagg upp á 63 síður, þetta eru 63 síður þar sem eru saman teknar athugasemdir við frv. Þær eru auðvitað mismunandi veigamiklar, en það eru miklar athugasemdir við þetta frv., mjög miklar. Þær koma frá ýmsum aðilum og þær hafa því miður verið ákaflega lítið ræddar í hv. menntmn., ákaflega lítið ræddar. Það var farið í gegnum þetta, en þær voru mjög lítið ræddar. Ég vil einmitt tíunda bréf sem okkur hefur borist frá kennurum þar sem er minnt á þessar efnislegu athugasemdir. Þau atriði sem þar eru tíunduð eru m.a. spurningarnar um samræmd próf, ákvæði um hámarksfjölda nemenda í bekkjum, eftirlitsskylda ráðuneytisins og sérkennslumálin. Þetta eru stóru atriðin í þessu frv. sem kennarasamtökin hafa gert athugasemdir við og nefndin hefði þurft að ræða. Ég er enn og aftur að gera athugasemdir við það að þegar svona stórt mál er til umfjöllunar þá skuli ekki gefin tími til þess að fara rækilega ofan í hvern einasta þátt málsins vegna þess að það skiptir meginmáli hver útkoman verður og það ríki sæmileg sátt um mál eins og þetta. Ég harma það hvernig hæstv. menntmrh. og meiri hluti menntmn. er búinn að koma þessu máli í algeran hnút, það er komið í algeran hnút.
    Varðandi ýmis efnisatriði frv. þá er kannski ekki ástæða til þess að fara nákvæmlega út í það. Ég gerði það í minni fyrstu ræðu, þó hef ég fengið athugasemdir um að ég hafi ekki farið efnislega í frv. og er sjálfsagt að gera það og ég get gert það hér í minni þriðju ræðu, ef ástæða er til. En ég vil þó minna á það að í þessu máli eru margir þættir sem vert er að ræða og kanna betur. Við kvennalistakonur höfum t.d. fengið töluverðar hringingar á undanförnum dögum, bæði frá kennurum og þó einkum foreldrum, sem hafa miklar áhyggjur af sérkennsluþættinum og finnst þau ákvæði frv. mjög óljós og óttast það að eins opið og frv. er hvað varðar sérkennsluþáttinn þá sé það alls ekki nægileg trygging um hvaða þjónustu er verið að tala. Og eins og ég hef komið hér inn á áður þá er sérkennslupólitík frv. mjög óljós, hún er vægast sagt mjög óljós. Og í einhverju af öllum þessum bréfum sem okkur hafa borist þá var á það bent að nefndin væri að taka undir hugmyndir um hina svokölluðu heildstæðu skólastefnu sem auðvitað er algerlega órædd í okkar samfélagi.
    Einn þátt vil ég nefna sérstaklega og beina því til meiri hlutans í hv. menntmn., að ég er ákaflega ósátt við það atriði sem lýtur að táknmáli heyrnleysingja. Við höfum fengið ítrekaðar áskoranir og beiðnir um að það verði tryggt í lögum að táknmál fái stöðu sem mál heyrnarskertra, fái stöðu sem þeirra tungumál eða þeirra mál. Á þetta hefur ekkert verið hlustað. Það er bara vísað í það að þetta megi setja í reglugerð. Ég skil ekki þessar röksemdir, ég skil ekki af hverju ekki má gera þetta. Þetta er sérstakur hópur fólks og hópur nemenda og það er sjálfsagt að tryggja lagalega stöðu þeirra, það er bara sjálfsagt mál og ég sannast að segja skil ekki af hverju meiri hluti nefndarinnar tekur ekki undir það.
    Ég ætla að koma að ræðu hv. þm. Tómasar Inga Olrich sem hann flutti hér að kvöldi til. Hann undraðist það að þetta frv. skyldi ekki fá fylgi okkar kvennalistakvenna og taldi sem sagt að þarna væri eitthvað sérkennilegt á ferðinni, það væri þarna skammt á milli sjónarmiða. Ég hygg að hann tengi það því að það sé verið að gera of mikið úr áhrifum kennara á þetta mál. En ég vil undirstrika það að mín afstaða byggist fyrst og fremst á því að ég er mjög ósátt við það að vera að afgreiða svona viðamikil lög sem eru svona illa unnin, svona viðamikið mál. Þetta er þríþætt mál eins og hér hefur margsinnis komið fram, þ.e. lögin sjálf, réttindamál kennara og síðan það hvernig sveitarfélögin eiga að standa undir þessari þjónustu. Þetta er illa unnið mál. Það eru hér efnisþættir sem hefði þurft að fara miklu betur ofan í og

ég sé ekkert sem mælir á móti því að taka þetta mál á vorþinginu sem er fram undan eða jafnvel á næsta haustþingi og vinna að sjálfsögðu áfram í þessum réttindamálum og því að átta sig á því hver kostnaðurinn er við frv. og hvernig verði staðið undir honum.
    Það var töluvert um það rætt í fyrri hluta þessarar umræðu hversu langt ætti að ganga í því að koma til móts við kröfur bæði Sambands ísl. sveitarfélaga og kennarasambandanna og spurningin um það, sem reyndar kom upp í hv. menntmn. líka, hver það er sem fer með löggjafarvaldið. Það er auðvitað augljóst mál að það er Alþingi sem fer með löggjafarvaldið, en mergurinn málsins er auðvitað sá að það er ekki hlutverk löggjafarvalds að þvinga lög í gegn. Það á ekki að vera hlutverk okkar að þvinga lög í gegn sem snerta þúsundir landsmanna, þúsundir og aftur þúsundir. Og ég vil minna á það sem lítið hefur komið hér fram að samtök foreldra neituðu að gefa umsögn um þetta frv. Þau neituðu að setja staf á blað um frv. vegna þess hvernig komið hefur verið fram við foreldra og skólana á undanförnum árum. Þau neituðu. Og þessi samskipti ríkisvaldsins, bæði við þá sem eiga að njóta þessarar þjónustu og þá sem veita þjónustuna, þessi framkoma er fyrir neðan allar hellur, algerlega fyrir neðan allar hellur.
    Ég ætla ekki að lengja mál mitt mikið meira en ég bara ítreka það að þetta mál er í algerum hnút og ég óttast að ef meiri hlutinn á Alþingi ætlar að knýja þetta mál í gegn án þess að einhvers konar sátt hafi náðst við kennarasamtökin þá séum við því miður að lengja þær vinnudeilur sem nú standa yfir. Mér finnst að hæstv. menntmrh. beri skylda til þess að gera okkur grein fyrir því hvernig þær vinnudeilur standa. Hver er staðan? Hvað hefur hæstv. menntmrh. gert til þess að beita sér fyrir lausn deilunnar? Ég fæ ekki betur séð en hann sé með sinni framgöngu og sinni framkomu að tefja hér mjög fyrir lausn mála, því miður. Þetta er ekki hlutverk hæstv. menntmrh. Þetta kann ekki góðri lukku að stýra. Það verður að nást fram skilningur á því hér að afgreiðsla þessa máls og inntak þess, inntak þessa máls er nátengt þeim kjarasamningum sem nú standa yfir. Menn verða bara að opna augu sín og skilja það annars verðum við í miklum vandræðum á næstu vikum og það þolir íslenskt skólastarf ekki.