Grunnskóli

105. fundur
Föstudaginn 24. febrúar 1995, kl. 12:27:51 (4945)

[12:27]
     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Hv. þm. taldi að ég væri með því að knýja fram afgreiðslu þessa frv. að tefja fyrir kjarasamningum. Ég vil upplýsa það að forustumenn kennarasamtakanna voru spurðir beint í gær á fundi með fjmrh. hvort það mundi liðka fyrir samningum ef þetta frv. yrði dregið til baka. Það fékkst ekkert svar við þeirri spurningu, ekki neitt. Hv. þm. undraðist samþykkt Sambands ísl. sveitarfélaga. Það er ekkert undarlegt við þá samþykkt. Hún byggist á því að Samband ísl. sveitarfélaga er sátt við þá skilyrtu gildistöku sem komin er fram í brtt. frá meiri hluta menntmn., auk þess sem tekið hefur verið tillit til flestra ábendinga sambandsins. Þess vegna er Samband ísl. sveitarfélaga sátt við það að frv. nái fram að ganga.
    Hv. þm. nefndi kostnaðaraukann og talaði þar um einsetninguna, að þetta mundi kosta milljarða kr. Sú skylda hefur verið lögð á sveitarfélögin með lögunum frá 1991, það er ekkert nýtt. Breytingin er eingöngu sú að nú segir í frv. að það skuli einsetja skólana en ekki bara stefnt að því. Tíminn sem sveitarfélögin hafa til þess að sinna þessari skyldu er sá sami og í gildandi lögum.
    Hv. þm. þótti ömurlegt að fylgjast með vinnubrögðum meiri hlutans. Ég ætla að viðurkenna ákveðin mistök sem ég hef gert og þau eru þessi: Að fallast á að umræðu skyldi frestað sl. þriðjudagskvöld þegar 2. umr. stóð yfir. Að eyða tveimur dögum í það að tala við fulltrúa stjórnarandstöðunnar í hv. menntmn. og forustumenn kennarasamtakanna í von um að ná samkomulagi. Vegna þessa og hversu naumur tími er til þingloka þá er það hægurinn hjá fyrir stjórnarandstöðuna að taka þetta mál í gíslingu og það er það sem er verið að gera með málþófi hér og með málþófi í nótt. Ég hlýt að sjá eftir þessu, ég hélt að ég væri að tala við sæmilega sanngjarnt fólk, en lengi skal manninn reyna.