Grunnskóli

105. fundur
Föstudaginn 24. febrúar 1995, kl. 12:32:19 (4948)


[12:32]
     Frsm. 1. minni hluta menntmn. (Kristín Ástgeirsdóttir) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Á fundi okkar á þriðjudagskvöldið var talað um yfirlýsingu sem við gætum öll staðið að. Slík yfirlýsing hefur ekki verið undir okkur borin. Ég sá að vísu á fundi menntmn. í gær bréf eða orð á blaði sem við fengum rétt að sjá en síðan var tekið til baka og ég leit þannig á að það þýddi að menntmrh. ætlaði ekki að gera tilraun til þess að ná samkomulagi.
    Þær umræður sem áttu sér stað í nótt eru vissulega tengdar umræðum um grunnskóla og það var auðvitað verið að bíða þess að eitthvað gerðist í málinu, gefa tíma og svigrúm til þess að vinna í málinu en það gerðist ekki neitt. Ég veit ekki betur en þingflokksformenn hafi komið þeim skilaboðum til hæstv. menntmrh. í nótt að enn væri tími til þess að koma orðum á blað og reyna samkomulagsleið. Enn hefur ekkert heyrst. Enn hefur ekkert verið talað við kennara og á greinilega ekkert að gera það. Fyrir utan það er ekkert óeðlilegt við það að menn ræði nýgerða kjarasamninga og þau kjarasamningsmál sem eiga að hafa forgang í þinginu í stað þess að vera að eyða tíma í þetta handónýta frv.