Grunnskóli

105. fundur
Föstudaginn 24. febrúar 1995, kl. 12:37:02 (4953)


[12:37]
     Árni Johnsen (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir segir að það sé vilji til þess hjá stjórnarandstöðunni að gera einhvers konar viljayfirlýsingu til þess að ná þessu máli fram. Þó segir þingmaðurinn á hitt borðið að frv. sé gerónýtt. Samt getur hv. þm. ekki leynt því að henni líkar margt í frv. og kjarni frv. er góður að hennar mati, það hefur komið fram. Þetta eru miklar andstæður, það er mikið bil þarna á milli. Þessi viljayfirlýsing liggur fyrir, hún er klár, hefur verið klár frá því að málinu var lokið í menntmn. vegna þess að það er endanlega í höndum kennara hvort frv. tekur gildi eða ekki. Það byggist á orðinu samkomulag. Og ef ekki verður samkomulag við kennara þá tekur frv. ekki gildi. Það er þetta sem málið snýst um. Það er rammasta pólitík að blanda þessu saman við kjaradeilu kennaranna nú. Og það var forvitnilegt að fylgjast með því í menntmn. hvernig sú pólitík kom inn í myndina. Ég kem kannski að því síðar í umræðunni.