Grunnskóli

105. fundur
Föstudaginn 24. febrúar 1995, kl. 12:38:21 (4954)


[12:38]
     Frsm. 1. minni hluta menntmn. (Kristín Ástgeirsdóttir) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það er rétt hjá hv. þm. Árna Johnsen að ég er sátt við ýmsa efnisþætti þessa frv. en ég tel að með vinnubrögðum sínum sé meiri hlutinn á hinu háa Alþingi búinn að eyðileggja þetta mál. Hann er einfaldlega búinn að eyðileggja þetta mál. Þetta mál er hápólitískt. Það er hápólitískt mál hvernig við rekum okkar skólakerfi en það þarf að vera sátt um það og þetta hlýtur hv. þm., sem er gamall kennari, að vita. Skólastarf er viðkvæmt og menn hljóta að skilja það að við getum ekki rekið skólastarf í einhverju styrjaldarástandi. Það verður að ríkja um það sátt. Það liggur ekkert samkomulag fyrir. Það er alveg ljóst að kennarar sætta sig ekki við þær tillögur sem meiri hlutinn hefur lagt fram. Það sem við erum að leggja áherslu á vegna framtíðar skólastarfs í landinu er það að málið nái afgreiðslu í sæmilegri sátt við kennara. Kannski ekki að þeir felli sig við allt en það sé sæmileg sátt og þeir telji sig nokkuð örugga um framtíðina.