Grunnskóli

105. fundur
Föstudaginn 24. febrúar 1995, kl. 12:39:39 (4955)


[12:39]
     Árni Johnsen (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er alveg rétt, þetta er hápólitískt mál og því miður hefur stjórnarandstaðan gert það að hápólitísku og tortryggilegu máli. Það er vandi málsins.
    Í fjárln. fyrir tæpum tveimur vikum á lokastigi byrjaði hv. þm. Svavar Gestsson að leggja fram pólitískar hótanir. Daginn eftir komu forsvarsmenn kennara og merkilegt nokk, með sömu hótanir í sömu röð. Það var forvitnilegt. Það er oft sem forustumenn kennara hafa lent í pólitískum gildrum og ég ætla ekki að fjalla um það nánar í stuttu andsvari. En í þessu máli er það einborinn misskilningur að ætla þessa tortryggni í garð kennara. Hún er röng og hún er ósanngjörn.
    Frumvarpið sem við erum að ræða opnar dyr inn í nýja tíma og nýja möguleika fyrir nemendur og það opnar kannski fyrst og fremst nýja möguleika fyrir kennara til að fá betri laun. Það er mikið mál og það er sannfæring mín að þetta frv. skapi nýjan farveg. Virðulegi forseti, það er mun hyggilegra að ganga til samkomulags út af því verklagi, fyrirkomulagi sem frv. byggir á, og vinna þannig tíma til betri kjara fyrir kennara.