Grunnskóli

105. fundur
Föstudaginn 24. febrúar 1995, kl. 12:42:03 (4957)
[12:42]
     Frsm. meiri hluta menntmn. (Sigríður A. Þórðardóttir) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Málið er í algerum hnút, sagði hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir áðan. En hvers vegna? Það er vegna þess að stjórnarandstaðan er að reyna að koma í veg fyrir afgreiðslu málsins og blandar saman efni þess og viðkvæmum kjarasamningum. Og þar með er frv. ekki lengur neitt aðalatriði í málflutningi þessa fólks, virðist vera.
    Þetta frv. var lagt fram í þinginu í haust. Það hefur alltaf legið fyrir að það væri ætlunin að afgreiða það og það var ekkert seinna vænna, það er komið að þinglokum. Það er búið að fá mikla umfjöllun í hv. þingnefnd. Það er gengið til móts við gagnrýni Sambands ísl. sveitarfélaga og kennarasamtakanna með tillögum meiri hluta nefndarinnar sem varða gildistökuákvæðið og ég fullyrði það að samþykkt frv. nú mun skapa festu fyrir þá vinnu sem ólokið er, einmitt hvað varðar lífeyris- og réttindamál kennara og tekjustofnafrv.