Grunnskóli

105. fundur
Föstudaginn 24. febrúar 1995, kl. 12:43:28 (4958)


[12:43]
     Frsm. 1. minni hluta menntmn. (Kristín Ástgeirsdóttir) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það er svo þegar frumvörp eru lögð fram þá er ætlast til þess að þau séu rædd, unnin og verði að lögum en hér hefur einfaldlega ekki gefist nægilegur tími til þess að vinna verkið að mínum dómi. Það kemur enn einu sinni hér fram að við séum að tengja þetta mál kjarasamningum. Ég eyddi löngum tíma í mínu máli til að sýna fram á það að þetta mál er nátengt kjarasamningum. Það er það vegna þess að það er verið að gera kjarasamninga til lengri tíma. Það er ekki bara verið að gera kjarasamninga til þriggja mánaða. Og inn í þá samninga kemur þessi breyting. Það er svo augljóst mál að ég skil ekki af hverju meiri hlutinn vill ekki horfast í augu við það.
    Að við séum að reyna að stöðva þetta mál þá er ég ítrekað búin að tala um og leggja áherslu á að menn reyni að komast að samkomlagi um þetta mál jafnvel þó að það sé svona illa unnið. Það verður engu tapað við það að málið frestist. Það verður kallað saman þing í vor og það verður þing í haust og vegna gildistökunnar sem er frestað til 1. ágúst 1996 þá er nægur tími til þess að vinna málið. Og af hverju liggur svona á? Af hverju liggur svona á að knýja þetta mál í gegn með allt í uppnámi, með kennarasamtökin á móti málinu sem eiga að vinna eftir þessum lögum? Ég spyr hv. þm. sem er fyrrv. kennari: Finnst henni þetta skynsamlegt? Heldur hún að þetta hafi góð áhrif á skólastarf í grunnskólum landsins?