Grunnskóli

105. fundur
Föstudaginn 24. febrúar 1995, kl. 12:46:18 (4960)


[12:46]
     Frsm. 1. minni hluta menntmn. (Kristín Ástgeirsdóttir) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það er hárrétt hjá hv. þm. að auðvitað eigum við ekki að ákveða hér hvert verður innihald einhverra frumvarpa sem menn munu samþykkja í framtíðinni. En við getum gefið yfirlýsingar. Við getum heitið því að standa við samninga og rýra ekki kjör kennara svo framarlega sem hér verður ekki hrun í efnahagslífinu eða eitthvað slíkt. Það er það sem málið snýst um og það er það sem við höfum verið að reyna að ræða á undanförnum dögum, en það heyrist ekkert frá hæstv. menntmrh. Ég hef ekki fengið neina skýringu á því hvers vegna ekkert gerðist eftir fundinn á þriðjudagskvöldið og síðan kom þetta litla bréf sem lagt var fram í menntmn. Hvað var það sem gerðist? Ræddi hann við kennara? Er það alveg ljóst að kennarar sætti sig ekki við einhvers konar samkomulag? Ef við gerðum tilraun til þess að skrifa slíkt plagg. Það eru þessi vinnubrögð meiri hlutans sem valda því að þetta mál er í hnút.