Grunnskóli

105. fundur
Föstudaginn 24. febrúar 1995, kl. 14:50:42 (4962)


[14:50]
     Sturla Böðvarsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ræða hv. 9. þm. Reykv. var í takt við það sem hefur verið í málflutningi hv. þingmanna Alþb. En það sem vakti sérstaka athygli mína af því sem hv. þm. Svavar Gestsson sagði var tvennt. Í fyrsta lagi sagði hann að nú mætti fara að kanna hvort hugsanlega mætti og væri unnt að flytja grunnskólann til sveitarfélaganna. Ég vil spyrja: Hvar hefur hv. þm. verið? Það hafa átt sér stað miklar viðræður á milli aðila og það hafa starfað nefndir sem kennarasamtökin hafa tekið þátt í til þessa undirbúnings og það hafa starfað nefndir sem fulltrúar sveitarfélaganna hafa starfað í til þess að vinna mjög eindregið að þessum flutningi. Þess vegna kemur mjög mikið á óvart að hv. þm. skuli tala með þessum hætti núna.
    Í annan stað vil ég vekja athygli á því sem hann sagði að það kæmi til greinan að þessi tilflutningur ætti sér stað t.d. til sveitarfélaganna eins og til Reykjavíkurborgar eða stærri sveitarfélaga. Þetta sagði hv. þm. hér í umræðunum áðan. Á hvaða leið er Alþb.? Vill Alþb. að þessi flutningur eigi sér stað til hluta sveitarfélaga í landinu? Það væri mjög fróðlegt að vita og heyra hvort þetta væri allsherjarafstaða Alþb. til flutnings grunnskólans.