Grunnskóli

105. fundur
Föstudaginn 24. febrúar 1995, kl. 14:57:54 (4968)


[14:57]
     Tómas Ingi Olrich (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er rétt að ég hef sagt það hér og stend við það að ég hefði kosið að það hefði verið hægt að ganga frá réttindamálum kennara og tekjuskiptingarmálum gagnvart sveitarfélögunum jafnhliða þessu máli en til þess gefst ekki tími. Hitt er annað mál að ég hefði ekki kosið það, virðulegi forseti, að gera mig hér sem alþingismaður að talsmanni kennara þó að ég komi úr stéttinni. Ég tek þá þessum málefnum eins og alþm. er skylda en það var þessi hv. þm. sjálfur, hv. þm. Svavar Gestsson, sem gerði sér far um það að gera sig hér að talsmanni kennarastéttarinnar eins og hann hefur gert sig hér hvað eftir annað að talsmanni þeirra launþegahreyfinga sem í þessu þjóðfélagi eiga í erfiðum kjaradeilum ríkisvaldið. Hann er hins vegar ekki eins sannfærandi talsmaður launþeganna þegar hann er kominn inn í ríkisvaldið og talar þeim megin við borðið. Hann hefur þennan myndbreytingarhæfileika kamelljónsins að skipta um lit.