Grunnskóli

105. fundur
Föstudaginn 24. febrúar 1995, kl. 15:20:01 (4974)


[15:20]
     Frsm. 3. minni hluta menntmn. (Svavar Gestsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir þau svör sem hann veitti við þeim spurningum sem ég bar fram, en það komu fram nokkur atriði í hans máli sem ber að flokka undir svör. Ég skildi ráðherrann þannig að hann væri fyrst og fremst reiður, ævareiður, og hann er bersýnilega aðallega reiður út í stjórnarflokkana sem veita honum slakan stuðning í þessu máli og reynir að skamma okkur stjórnarandstæðingana í sambandi við að umræðan um málið tekur einhvern tíma. Staðreyndin er sú að reiði hans og sárindi beinast fyrst og fremst að stjórnarflokkunum sem eru að ýta þessu máli til hliðar, eða þannig skil ég hans málflutning, eins og hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir, að það sé í raun og veru uppgerður hugur hjá ráðherranum að málið fari ekki mikið lengra.
    Ég ætla ekki að svara einstökum atriðum í ræðu hans núna, enda er ekki tími til þess, ég hef hér tvær mínútur. En ég ætla að segja þetta: Ráðherrann sagði: Ég get ekki sagt um það hvað tekur gildi. Og hann sagði: Það verður sett í reglugerð það sem tekur gildi. Ætlar Alþingi Íslendinga að afsala löggjafarvaldinu í hendurnar á framkvæmdarvaldinu algerlega með opnum hætti eins og hér er verið að tala um? Og hann sagði annað: Það má setja það í reglugerð hvernig að því verður staðið að kennararnir hætti að vera ríkisstarfsmenn og verði sveitarfélagastarfsmenn 1996. ( Menntmrh.: Þetta er rangt.) Ætlar hann að reka kennarana með reglugerð frá og með haustinu 1996? Hvað átti ráðherrann við? Það er alveg óhjákvæmilegt að hann skýri það hvað hann átti við og ég ráðlegg honum að hafa almennilegt gildistökuákvæði í frv. ef hann ætlar að láta það fara í gegnum þingið.