Jarðalög

105. fundur
Föstudaginn 24. febrúar 1995, kl. 16:45:05 (4987)


[16:45]
     Frsm. landbn. (Egill Jónsson) :
    Virðulegi forseti. Landbn. hefur afgreitt frá sér álit varðandi frv. til laga um breytingar á jarðalögum og er það álit lagt fram á þskj. 746. Frv. sjálft var hins vegar lagt fram hér fyrr í vetur og þá í annað sinn því það var ekki útrætt á síðasta þingi. Landbn. leitaði þá umsagnar um málið og þær voru hafðar til hliðsjónar þegar málið var aftur yfirfarið í landbrn. og landbn. ítrekaði reyndar þessar umsagnir við þá aðila sem hún hafði leitað til. Eins og fram kemur í áliti nefndarinnar og brtt. hefur nefndin gert fjórar brtt. við frv, en þær eru út af fyrir sig ekki efnismiklar og skýra sig sjálfar. Við fyrri umræðu málsins í þinginu fór fram mikil umræða og eftir því var leitað við landbn. að hún færi ítarlega yfir málið til að álitamál sem frv. kann að bera með sér yrðu skýrð frekar.
    Til þess að fá sem skýrasta mynd af því ritaði ég Tryggva Gunnarssyni hæstaréttarlögmanni bréf með nokkrum spurningum þar sem þessi álitamál voru sérstaklega upp tekin og fylgir svar Tryggva Gunnarssonar hér með sem fylgiskjal. Að öðru leyti skýrir nál. fullkomlega þær brtt. sem hér eru lagðar til og vísa ég sérstaklega til þeirra.
    Landbn. hefur svo undirritað nál. og eftirtaldir nefndarmenn með fyrirvara, þ.e. hv. þm. Ragnar Arnalds, Jóhannes Geir Sigurgeirsson, Kristín Ástgeirsdóttir og Guðni Ágústsson. Að öðru leyti er álit nefndarinnar án fyrirvara. Þannig að fram komnar tillögur leyfi ég mér, hæstv. forseti, að leggja til að verði samþykktar.