Jarðalög

105. fundur
Föstudaginn 24. febrúar 1995, kl. 16:48:55 (4988)


[16:48]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegur forseti. Ég ætla í örfáum orðum að gera grein fyrir mínum fyrirvara við afgreiðslu þessa frv. Hann lýtur að því að þau ákvæði sem varða samninginn um hið Evrópska efnahagssvæði og tengjast verslun með bújarðir taka ekki gildi fyrr en í árslok 1996. Að mínu mati er það fljótræði að vera að afgreiða þessi lög núna. Fram að þeim tíma þýða þau ekkert annað fyrir okkur en hugsanlegt óhagræði varðandi viðskipti með jarðir hér innan lands en skipta engu máli gagnvart rétti útlendinga út af EES-samningnum á þessu tímabili. Ég hefði kosið að tíminn hefði verið notaður til að skoða þetta betur og það er að mínu mati óæskilegt að setja inn í jarðalög ákvæði sem hugsanlega þrengja möguleika íslenskra aðila með viðskipti með bújarðir. Það sem þyrfti að vera til staðar er neyðarréttur og hann staðfestur í lögum sem hægt væri að grípa til ef menn sæju fram á að ágengni erlendra aðila í jarðnæði hér væri orðin þannig að við því þyrfti að bregðast.