Áhafnir íslenskra kaupskipa

105. fundur
Föstudaginn 24. febrúar 1995, kl. 17:37:22 (5001)

[17:37]
     Frsm. samgn. (Pálmi Jónsson) :
    Hæstv. forseti. Samgn. hefur fjallað um frv. þetta um áhafnir íslenskra kaupskipa og rætt það á allnokkrum fundum sínum.
    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á fund til sín Svein Snorrason hæstaréttarlögmann, Helga Jóhannesson, lögfræðing í samgönguráðuneyti, Einar Hermannsson, framkvæmdastjóra Sambands íslenskra kaupskipa, Pál Hjartarson frá Siglingamálastofnun, frá Sjómannafélagi Reykjavíkur Jónas Garðarsson, Birgi Björgvinsson og Erling Guðmundsson, Helga Laxdal, formann Vélstjórafélags Íslands, Guðjón Á. Kristjánsson, formann Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, Guðlaug Gíslason, framkvæmdastjóra Stýrimannafélags Íslands, Guðjón Ármann Eyjólfsson, skólastjóra Stýrimannaskóla Íslands, og Björgvin Jóhannsson, skólastjóra Vélskóla Íslands. Þá bárust nefndinni umsagnir um málið frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Sjómannafélagi Reykjavíkur og Sjómannasambandi Íslands.
    Þá bárust nefndinni ýmsar umsagnir frá hagsmunaaðilum, m.a. frá þeim aðilum sem nefndin kvaddi forsvarsmenn sömu félaga á sinn fund.
    Frv. þetta er tengt tveimur öðrum frv. sem liggja fyrir á hv. Alþingi og eru komin til 3. umr. um skipstjórnarréttindi og um vélstjórnarréttindi.
    Frv. hefur mikla þýðingu að því leyti að Íslendingar hafa ekki gerst aðilar að alþjóðlegum samningi sem 103 þjóðir hafa undirritað, eða um 93% þeirra þjóða sem stunda siglingar. Þessi samningur er nú til endurskoðunar og standa líkur til þess að hann verði undirritaður að nýju nú með vorinu. Þar sem við Íslendingar höfum ekki gerst aðilar að þessum samningi höfum við átt mjög undir högg að sækja og þurft eiga það upp á náð vinveittra þjóða að íslenskir skipstjórnarmenn og íslenskir sjómenn hafi fengið að starfa um borð í erlendum kaupskipum. Enn fremur liggur við borð að ef Íslendingar gerast ekki aðilar að þessum nýja samningi, sem undirritaður kann að verða í vor, þá töpum við einnig réttindum fyrir okkar íslensku skip í erlendum höfnum.
    Frv. hefur því mikla þýðingu til þess að tryggja hagsmuni okkar og réttindi, bæði íslenskra sjómanna og skipa okkar í erlendum höfnum.
    Upp kom við meðferð málsins mikil tortryggni á frv. af hálfu fulltrúa Sjómannafélags Reykjavíkur sem töldu að með frv. væri verið að raska gerðum kjarasamningum og því vildu fulltrúar Sjómannafélags Reykjavíkur ekki una. Nefndin hafði eigi áhuga fyrir því að blanda sér í kjaramál þessarar þýðingarmiklu stéttar, sjómannastéttarinnar, og lýsti sig reiðubúna til þess að breyta frv. Að lokum varð um það samkomulag við formann Sjómannafélags Reykjavíkur, Jónas Garðarsson, og í því samkomulagi tóku einnig þátt hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson, 16. þm. Reykv., og Guðjón A. Kristjánsson, forseti Farmanna- og fiskimannafélags Íslands.
    Með breytingu á frv. lýstu þessir aðilar allir að þeir gætu sætt sig við frv. og með því að það tryggir þá hagsmuni, sem ég hef lýst, telur nefndin afar nauðsynlegt að það nái afgreiðslu á þessu þingi og leggur til að frv. verði samþykkt með tveimur breytingum:
    Í fyrsta lagi að við 1. gr. frv. bætist ný málsgrein er orðist svo:
    ,,Lög þessi skulu á engan hátt skerða ákvæði kjarasamninga eða önnur samningsbundin réttindi þeirra er lög þessi taka til.``
    Í öðru lagi að 6. gr. frv. falli brott.
    Með þessum breytingum er afdráttarlaust úr því skorið að ótti ýmissa félagsmanna Sjómannafélags Reykjavíkur um að hér væri verið að raska eitthvað kjarasamningum þeirra er tilefnislaus. Nefndin leggur einróma til að frv. verði afgreitt með þessum tveimur breytingartillögum.