Vörugjald af olíu

106. fundur
Föstudaginn 24. febrúar 1995, kl. 21:17:24 (5012)

[21:17]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Það er talsverður hraði á afgreiðslu mála þessa dagana þannig að þegar þetta mál var til 2. umr. í dag þá var ég stödd á öðrum fundi og komst ekki í umræðuna um það. Ég vildi samt sem áður koma á framfæri ákveðnum athugasemdum í sambandi við þetta vörugjald.
    Það sem ég vildi segja er að vissulega eru menn sammála um það að núverandi kerfi er ekki nógu gott og hefur það sýnt sig á undanförnum árum að það hefur verið þar verulegt svindl og jafnvel undanskot frá því að greiða þungaskatt af olíu. Samt sem áður er það líka staðreynd að eftirlitið hefur aukist nokkuð, sérstaklega síðasta árið, vegna þess að Vegagerðin yfirtók eftirlitið með mælunum. Þó er þar enn þá pottur brotinn því kærur sem lagðar eru fram um svik í þessu þungaskattskerfi ná ekki fram. Þess vegna hefur einmitt verið almennur áhugi á því að innheimta þennan þungaskatt í olíunni sjálfri.
    Nú lítur út fyrir það að með þessu frv. eigi ekki að gera það sem upphaflega var rætt um þegar innheimtu þungaskatts yrði breytt, þ.e. að þá yrði um litaða olíu að ræða. Það er alveg hægt að búast við því að það verði veruleg undanskot í þessu nýja kerfi ekki síður en var í þungaskattskerfinu sem við búum við í dag. Þessi breyting kostar allmikið og það er spurning hvort við verðum eitthvað betur sett en áður ef ekki er hægt að fylgjast með því að þau undanskot sem þetta átti að koma í veg fyrir verði ekkert minni en áður var. Það hefur alltaf verið talað um það og í löndunum í kringum okkur er notuð lituð olía. Nú hefur að vísu komið í ljós á þeim stutta tíma sem sem hv. efh.- og viðskn. hafði til að fjalla um þetta mál, að hin svokallaða litaða olía er mjög mengandi og í sumum löndum eru menn farnir að sjá áhrif af því. Ég tel að þegar hér hefur verið talað um það á hinu háa Alþingi að við breyttum þessari innheimtu þungaskatts þá hafi menn í raun og veru alltaf verið að hugsa um það að kerfið yrði skilvirkara og það yrði skilvirkara með því að það væri hægt að sjá mismun á því hvort fólk væri að kaupa litaða olíu eða ólitaða eftir því til hverra hluta hún ætti að notast.
    Síðan er ýmislegt að athuga í þessu frv. líka. Olíunotkun á bíla er stórkostlega vanmetin í forsendum þessa frv. og það gildir í raun um alla stærðarflokka bifreiða og þetta raskar öllu því mati sem hér er lagt á. Það má hugsanlega vinna það betur í framhaldinu, en það bendir einmitt til þess að það þyrfti að vinna frv. betur áður heldur en það er samþykkt. Þetta sem hér á að nota, þ.e. sem nokkurs konar endurgreiðslukerfi aftur, að þeir sem kaupa olíuna með þessu gjaldi geti fengið það endurgreitt svipað og virðisaukaskattsskýrslur gefa fólki kost á að fá endurgreiddan innskatt, en það eru aðeins Danir sem hafa notast við slíka aðferð og þeir eru núna að leggja hana niður og þá ætlum við á sama tíma að fara að taka hana upp.
    Það er einnig bent á það frá samtökum landflutningamanna að fólksflutningar koma alveg sérstaklega illa út úr þessari breytingu. Það segir hér í bréfi sem ég hef frá landflutningamönnum, að hvorki leigubifreiðar né hópferðabifreiðar séu í þessu virðisaukaskattskerfi og virðisaukaskattur sem lendir ofan á hlut þungaskatts í olíuverðinu fæst ekki endurgreiddur. Það leiðir til hækkunar á rekstri þessarar þjónustu í verulegum mæli og sú hækkun mun leiða til hækkunar fargjalda. Þetta hljóti að vera verulegt áhyggjuefni og menn velta því fyrir sér hvernig eigi að leysa það, hvort almenningur muni þurfa að bera þennan kostnað með virðisaukaskatti á þungaskattinn í olíunni, hvort hann muni þá þurfa að bera hann í auknum kostnaði leigubifreiða til dæmis eða fólksflutningagjalds.
    Ég tel að það séu mjög margir gallar á frv. og hafi, eins og oft vill verða á síðustu dögum þingsins, ekki unnist nægur tími til að skoða það hvort þetta er rétt til þess að ná betri innheimtu á þungaskattinum. Í nál. frá efh.- og viðskn. segir í 9. lið, með leyfi forseta:
    ,,Lagt er til að gildistöku laganna verði frestað um hálft ár eða til 1. janúar 1996. Til samræmis er ákvæðum til bráðabirgða breytt á sama hátt. Nefndin telur frestun á gildistökunni nauðsynlega svo að nægur tími gefist til að undirbúa framkvæmdina.`` --- Við erum nú farin að verða nokkuð vör við eitthvað slíkt hér þegar verið er að afgreiða frumvörp. --- ,,Í þessu sambandi leggur nefndin einnig til að inn í frumvarpið verði tekið nýtt ákvæði til bráðabirgða sem mælir fyrir um skipun sérstakrar samráðsnefndar sem hafi það hlutverk að vera til ráðgjafar um undirbúning og framkvæmd laganna.`` --- Um undirbúning laganna. Er þá ekki búið að undirbúa þessi lög og þaðan af síður búið að undirbúa framkvæmdina? Hvers konar vinnubrögð eru það á hinu háa Alþingi að hér er lagt til að skipuð sé nefnd sem á að undirbúa og vinna að þessum lögum eftir að þau eru sett hér í einhverjum hraða?
    Mér finnst því vera mjög einkennilega staðið að því að afgreiða þetta mál og vildi koma á framfæri þeim athugasemdum. Ég tel að þetta frv. hafi ekkert erindi í gegnum þingið á þessu stigi, það eigi eftir að skoða þetta mál miklu betur og vinna það betur. Þó vil ég samt sem áður leggja áherslu á að ég tel að það þurfi að vinna að því að þetta sé gert með þessum hætti, en ég tel að undirbúningurinn að því sé alls ekki nógu góður, enda kemur það greinilega fram í nál.