Áhafnir íslenskra kaupskipa

106. fundur
Föstudaginn 24. febrúar 1995, kl. 21:29:02 (5013)

[21:29]
     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Í þeim asa og þeim sérkennilegu vinnubrögðum sem hér hafa verið höfð í frammi í dag, þegar tugir mála eru afgreidd sem lög frá Alþingi, fer ekki hjá því að tími gefst ekki til þess að skoða hvert einasta mál eins og vert væri og þó að sú sem hér stendur þykist reyna að lesa flest þingmál í gegn þá er það auðvitað misvel gert. Það mál sem hér er til umræðu, frv. til laga um áhafnir íslenskra kaupskipa, er þess eðlis að ég vil lýsa því yfir hér að ég mun ekki greiða því atkvæði hér við 3. umr. Ég held að þetta mál þarfnist nánari skoðunar, enda kemur það í ljós að samtök sjómanna eru hrædd við þetta frv. Það eru afar sérkennilegir hlutir hér í skýringum við einstakar greinar frv. og nægir, hæstv. forseti, að lesa setningu eins og þessa, með leyfi hæstv. forseta: ,,Í frv. þessu`` --- þetta er um 3. gr. --- ,,er ekki kveðið á um lágmarksfjölda skipstjórnar- og vélstjórnarmanna á íslenskum kaupskipum að öðru leyti en því að

á hverju skipi skuli vera skipstjóri.`` --- Það er nú mesti munur að það skuli þó a.m.k. vera tryggt.
    Ýmislegt annað er hér að sjá eins og 6. gr., en hún var reyndar, ef ég man rétt, felld niður, sem betur fer, en þar var kveðið á um að einstakir skipverjar geti gegnt störfum bæði á þilfari og sem aðstoðarmenn í vélarrúmi. Ég held að þetta mál þurfi einfaldlega miklu betri skoðun og er ekki að tilefnislausu að samtök sjómanna eru óróleg út af frv. ef að lögum verður.
    Ég hlýt nú enn einu sinni þegar málefni sjómanna ber á góma hér að auglýsa eftir þeim manni sem á þingi situr vegna þess að hann hefur verið í forustu fyrir sjómannasamtökum, hv. 16. þm. Reykv., Guðmundi Hallvarðssyni. Hvar er hann í hvert einasta skipti sem málefni sjómanna eru á dagskrá á hinu háa Alþingi? Sjómenn hafa ekki átt marga málsvara í þessari virðulegu stofnun og er alveg lágmark að þeir sem hingað hafa verið kjörnir vegna stöðu sinnar í samtökum sjómanna hirði um að fylgjast með afgreiðslu þeirra mála. Ég vildi í allri vinsemd taka það fram, hæstv. forseti, að ég hef í dag gert það sem ég hef getað til að greiða fyrir hverju þingmálinu á fætur öðru, bæði stjórnarfrv. og frv. einstakra þingmanna og ekki síst stjórnarþingmanna, því málefni stjórnarandstöðunnar hafa ekki mikið komið út úr nefndum enn sem komið er. En ég held að það geti ekki verið til of mikils mælst að fara þess á leit við hæstv. forseta og hv. formann samgn., sem ég treysti öðrum mönnum betur, og ég vil taka það fram, til að vinna vel mál úr þeim nefndum sem hann stýrir, að þessu máli verði frestað þó ekki væri nema til morguns þannig að okkur gæfist tími til að skoða það ofurlítið betur.
    Ég segi fyrir mig, ég kysi að hafa aðeins tíma til að heyra sjálf í forustumönnum sjómanna. Ég hafði spurnir af því að þeir hefðu haft samband við nefndarmenn og lýst áhyggjum sínum og ég tel það vera skyldu okkar þingmanna að ganga úr skugga um hvort einhver ástæða er fyrir þeim ótta. Ég vil sem sagt, hæstv. forseti, fara þess á leit að málinu verði frestað um sinn og okkur gefist kostur á að skoða það ofurlítið nánar. Vel má vera að ég hafi rangt fyrir mér, það sé engin ástæða til að óttast, en þegar verið er að setja lög sem eru svo þýðingarmikil sem þetta frv. þá hlýtur það að vera skylda hvers einasta þingmanns að vera nokkuð viss um að hann sé ekki að gera sjómannastéttinni í þessu tilviki skaða með samþykkt frv. Ég óska því eftir að málinu verði frestað til morguns.