Áhafnir íslenskra kaupskipa

106. fundur
Föstudaginn 24. febrúar 1995, kl. 21:35:30 (5015)


[21:35]
     Guðrún Helgadóttir (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég held að hv. 2. þm. Norðurl. v. hafi misskilið orð mín. Ég er ekkert að óska eftir því að stöðva þetta mál, ég er aðeins að óska eftir því að fá nokkra klukkutíma til þess að skoða það ofurlítið nánar. Ég hef oft og tíðum sinnt ofurlítið málefnum sjómanna, ég hef talið mér það skylt þó ekki væri nema vegna uppruna míns og það eru ekki svo margir sem gera það hér, að ég á erfitt með að taka afstöðu til máls sem ég hef alvarlegar efasemdir um. Ég er einungis að biðja um að fá tíma til að eyða þeim efasemdum og þá mun ég að sjálfsögðu greiða fyrir að þetta frv. verði að lögum ef engin ástæða er til að óttast það sem í því stendur. En ég er ekki nógu sannfærð til þess að greiða þessu frv. atkvæði við 3. umr. og ég fæ ekki séð hvers vegna það er til svo mikils mælst að málinu verði frestað til morguns. Hér eiga eftir að fara fram atkvæðagreiðslur á morgun og ég mun ekki á nokkurn hátt setja fjötur á þetta mál ef ég fæ tíma til að skoða það nánar. Ég vildi að ég sæi í hugskot þeirra hv. þm. sem hér sitja. Ég er ekki alveg sannfærð um að þeir hafi allir skoðað þetta mál mjög nákvæmlega. Það má vel vera að við eigum ekkert að vera að hafa áhyggjur af því hvernig við greiðum atkvæði á hinu háa Alþingi. Ég geri það eins og ég hef alltaf gert og ítreka þá beiðni mína að fá að skoða þetta mál til morguns.