Eftirlit með skipum

106. fundur
Föstudaginn 24. febrúar 1995, kl. 21:47:48 (5018)

[21:47]
     Frsm. samgn. (Pálmi Jónsson) :
    Hæstv. forseti. Frv. þetta er flutt af samgn. að höfðu samráði við samgrn. og ýmsar stofnanir sem hagsmuna eiga að gæta í sjávarútvegi. Frv. er samið af Siglingamálastofnun ríkisins og er tiltölulega einfalt. Það felur það í raun aðeins í sér að verið er að leggja til að fellt sé niður aldurshámark á innflutningi fiskiskipa sem er miðað við 15 ár í gildandi lögum.
    Eins og fram kemur í greinargerð frv. hefur sú þróun átt sér stað bæði að því er varðar fiskiskip og kaupskip að gerð þeirra er önnur og það efni sem þau eru smíðuð úr er sterkara en áður. Sjóhæfni þeirra og styrkleiki miðast ekki eins og áður var við aldur heldur aðra hluti og ætla ég ekki að rekja það í löngu máli en að þessu er vikið í greinargerð frv. og skýrt nokkuð þar.
    Ég vil geta þess að allir þeir aðilar sem spurðir voru álits á því hvort rétt væri að flytja slíkt frv. mæltu með því utan einn en það var Landssamband ísl. útvegsmanna sem mælti gegn því að þessi aldursregla yrði afnumin. Það var þó ekki á þeirri umsögn að skilja að öryggisatriði réðu um þá afstöðu samtakanna heldur önnur atriði sem lúta að stærð fiskiflotans og nýtingu fiskstofnanna hér við land eða á nálægum miðum.
    Ég sé ekki ástæðu til þess að fara um þetta frv. mörgum orðum. Samkvæmt frv. yrði skip, sem keypt væri eða leigt frá útlöndum til skráningar hér á landi, að hafa verið smíðað í samræmi við reglur sem eru viðurkenndar flokkunarreglur hér og það skip yrði að fullnægja íslenskum lögum og reglum um styrkleika, búnað og haffæri og slík skoðun yrði að fara fram áður en heimild yrði að flytja skipið inn.
    Að lokinni skoðun og mati á skipinu áður en það er flutt inn tæki siglingamálastjóri ákvörðun um það hvort hann mælti með að skipið yrði flutt inn og skráð hér á landi eða ekki.
    Þessar reglur sýnast vera mjög afdráttarlausar og Siglingamálastofnun og siglingamálastjóri treystu sér fullvel til þess að meta þessi tilvik öll í samræmi við þær reglur sem eru settar í þessari lagagrein.
    Hæstv. forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fara um þetta fleiri orðum. Ég mun heldur ekki óska eftir því að frv. þetta gangi að nýju til nefndar, það er flutt af nefnd og nefndin leggur til að það verði samþykkt á þessu þingi.