Leigubifreiðar

106. fundur
Föstudaginn 24. febrúar 1995, kl. 21:59:32 (5021)


[21:59]
     Petrína Baldursdóttir :
    Hæstv. forseti. Hv. þm. Pálmi Jónsson, formaður samgn., gerði í fyrradag grein fyrir brtt. samgn. við frv. til laga um leigubifreiðar. Í nál. kemur fram fyrirvari minn við þær brtt. og vil ég í örfáum orðum gera grein fyrir í hverju hann er fólginn.
    Fyrirvari minn er fólginn í því atriði er snertir breytingar sem gerðar eru við 7. gr. í frv. Á þskj. 735 í 3. tölul. þar sem rætt er um breytingu á 7. gr. er það b-liður sem ég hef haft fyrirvara á. Í b-lið er talað um að nýr málsl. bætist við 7. gr. er orðist svo, með leyfi forseta:
    ,,Þó er heimilt að framlengja atvinnuleyfi til eins árs í senn allt til 75 ára aldurs leyfishafa ef hann telst hæfur til að stunda leiguakstur á grundvelli hæfnisprófs og læknisskoðunar eftir því sem nánar er ákveðið í reglugerð.``
    Eins og kom fram í máli hv. þm. Pálma Jónssonar, formanns samgn., skal meginreglan vera sú að atvinnuleyfi bifreiðastjóra falla úr gildi við 70 ára aldur. Brtt. gerir hins vegar ráð fyrir því að hægt sé að víkja frá þessari meginreglu til eins árs í senn, allt til 75 ára aldurs á grundvelli hæfnisprófs og læknisskoðunar. Þarna er verið að framlengja atvinnuleyfi. Það eru mjög skiptar skoðanir um það ákvæði hvort menn skuli hætta akstri atvinnubifreiða við ákveðin aldursmörk eða ekki. Ég hefði viljað láta ákvæði frv. gilda án þess að hægt væri að veita þessa undantekningu frá meginreglunni.
    Gildandi lög um leigubifreiðastjóra gerðu ráð fyrir að eftir ákveðinn aðlögunartíma skyldi meginreglan vera að atvinnuleyfi leigubifreiðastjóra félli úr gildi við 71 árs aldur leyfishafa. Þetta umdeilda ákvæði laganna var ekki komið til framkvæmda þegar menn ætluðu sér að breyta því. Ég er í grundvallaratriðum á móti því að atvinnubílstjórar, hvort sem um er að ræða leigubifreiðastjóra, vöruflutningabifreiðastjóra eða hópferðabifreiðastjóra stundi atvinnuakstur eftir 70 ára aldur. Ég mun ekki fara út í efnisumræðu hvers vegna ég er mótfallin því en ég vil hins vegar geta þess að þar eiga öryggissjónarmið stóran hlut að máli. Ég vil einnig geta þess að á grundvelli þess að mjög mikilvægt er fyrir atvinnubifreiðastjóra að afgreiða þetta frv. hér á þessu þingi tók ég þá afstöðu að gera ekki grundvallarágreining í samgn. Alþingis um þetta aldursákvæði. Ég tel að menn hafi með því að skilyrða atvinnuleyfin eftir 70 ára aldur við hæfnispróf og læknisskoðun verið að koma á móts við þær gagnrýnisraddir sem uppi hafa verið við hámarksaldur atvinnuleyfishafa.
    Markmið frv. er að fella úr gildi lögbundna skylduaðild fólksbifreiðastjóra, vörubifreiðastjóra og sendibifreiðastjóra að stéttarfélögum. Þetta eru nauðsynlegar breytingar á lögunum til samræmis við niðurstöðu Mannréttindadómstóls Evrópu vegna kæru Sigurðar A. Sigurjónssonar á hendur íslenska ríkinu.
    Ég vil aðeins undirstrika að þrátt fyrir að ég sé ekki sátt við þær breytingar sem lagðar eru til við undantekningu frá meginreglunni um aldursákvæði atvinnuleyfishafa mun ég ekki standa í vegi fyrir afgreiðslu frv.