Leigubifreiðar

106. fundur
Föstudaginn 24. febrúar 1995, kl. 22:21:49 (5026)


[22:21]
     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég þakka hv. 2. þm. Norðurl. v. fyrir hans skýringu á sjónarmiðum nefndarinnar að þessu leyti. Það er athyglisvert að það kemur fram að í rauninni er hér ekki byggt á mikið öðru en tilfinningu ef svo má segja. Það er huglægt mat sem gengur gegn því sem er varðandi almenn starfslok. Þá er verið að tala um það sem gildir í opinberum störfum og þar sem er hlutast til um það hvenær starfslok eru en hér er um leyfisveitingar að ræða eins og fram hefur komið.

    Það sem reynt var 1989 þegar þetta var innleitt var einmitt að skapa með sanngirni aðlögunartíma sem miðaði við það að þeir sem höfðu leyfi og voru komnir á þessi aldursmörk fengu aðlögunartíma. Mig minnir það vera allt til 75 ára aldurs, svipað og bráðabirgðaákvæðið sem vísað var til tekur fram.
    Mér finnst miður að það er verið að brjóta þetta upp. Ég hélt það væri í rauninni komin sú reynsla á þetta að menn mundu við una. Eins og ég segi eru alltaf ákveðin sárindi að með löggjöf sé verið að hlutast til um efni af þessum toga en það er líka mjög ófarsælt að vera að hringla með lagasetningu af þessu tagi á Alþingi eftir að ákvarðanir eru teknar. Ég hef ekki enn heyrt gild rök fyrir þessum breytingum.