Leigubifreiðar

106. fundur
Föstudaginn 24. febrúar 1995, kl. 22:23:51 (5027)


[22:23]
     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Ég vildi gjarnan víkja örfáum orðum að því að mér finnst það að mörgu leyti athyglisvert sem hér er verið að gera, þ.e. að skapa möguleika til að menn geti starfað lengur í þeirri grein sem hér er til umfjöllunar en heimilt hefur verið hingað til. Ég virði út af fyrir sig ágætlega að þau sjónarmið sem komu fram hjá hv. síðasta ræðumanni og það hafa verið ákveðnar reglur og venjur um þetta í okkar þjóðfélagi. Þetta er hins vegar ekkert flokkspólitískt mál heldur fyrst og fremst helgast af viðhorfum manna til þeirra breytinga sem hugsanlega eru í okkar þjóðfélagi. Mér fannst þess vegna úr því að umræður fóru inn á þennan farveg óhjákvæmilegt að láta það koma hér fram að mér hefur á síðari missirum verið æ meira hugsað til þess að kannski höfum við Íslendingar og erum einum of afdráttarlausir í því hvar við drögum aldursmörk gagnvart störfum. Við höfum almennt fylgt þeirri reglu að menn hættu þátttöku í störfum og jafnvel trúnaðarstörfum og á öðrum sviðum milli 65 og 70 ára en blessunarlega lifum við á tímum þar sem heilsa manna er mun betri en hún var áður og menn halda bæði andlegri og líkamlegri heilsu lengur en áður tíðkaðist.
    Ég hef tekið eftir því að ýmsar þjóðir, t.d. Bretar og Bandaríkjamenn, svo ég nefni tvær, að ógleymdum náttúrlega Japönum og Kínverjum, hafa falið fólki sem er komið töluvert yfir sjötugsaldur, jafnvel yfir áttræðisaldur, en er í fullu andlegu og líkamlegu fjöri margháttuð trúnaðarstörf og þetta gefst vel. Fólk hefur mikla reynslu og það hefur möguleika á því að miðla af þeirri reynslu og allt er þetta farsælt. Við sjáum þetta í ýmsum stjórnunarstörfum, við sjáum þetta m.a. á þjóðþingum ýmissa landa, við sjáum þetta í atvinnulífinu og á ýmsum öðrum sviðum. Hér hafa t.d. verið óskráðar reglur á vettvangi stjórnmálanna að menn hyrfu þaðan fyrir sjötugt. Ætli það sé ekki bara leitun á mönnum ef þeir eru þá fleiri en sá ágæti þingmaður sem er nú að hætta þingmennsku, hv. þm. Matthías Bjarnason, sem gegna störfum eftir að hafa náð þeim aldri.
    Við tókum þá ákvörðun innan Alþb. á sínum tíma að fela fyrrv. þm. Lúðvík Jósepssyni að sitja fyrir okkur í bankaráði Landsbankans sem hann gerði til dauðadags á liðnu ári og gerði það með miklum sóma og miklum krafti og ég held að það sé samdóma álit allra sem sátu með honum í bankaráði að hann hafi frekar skarað fram úr yngra fólki í bankaráðinu en hitt að hann væri þar einhver eftirbátur. Og þó menn eigi ekki í önnum þingsins að vera að rifja upp persónulegar lífreynslusögur þá má ég til með að segja það hér að það er með eftirminnilegri atvikum frá síðari árum þegar allt í einu kom upp á þessu kjörtímabili að ríkisstjórnin ætlaði að grípa inn í fjárhagsmálefni Landsbankans með því að setja nokkra milljarða í bankann. Við þingmenn munum allir að það mál kom allt í einu upp árla morguns og það var langur vinnudagur hjá öllum á vettvangi stjórnmálanna og í bankanum og þegar komið var undir kvöldmat þá kom fulltrúi okkar í bankaráðinu, átti eftir tvö ár í áttrætt ef ég man rétt, og hitti mig og formann þingflokksins og hélt yfir okkur u.þ.b. eins og hálfrar klukkustundar nákvæman og ítarlegan fyrirlestur um málið og rakti það svo ljóslega að allt lá það skýrt og opið fyrir á eftir. Þetta varð mér umhugsunarefni um það að aldurinn segir kannski ekki allt um hæfni manna og eiginleika til þess að gera sig gildandi.
    Hér um að ræða bara afmarkað frv. og það er eðlilegt að menn setji kannski spurningarmerki við það en mér fannst hins vegar rétt að lýsa þeim viðhorfum mínum að ég er fylgjandi því að þetta nái fram að ganga og finnst að við ættum með opnum huga að skoða betur hvernig við getum nýtt starfskrafta fólks í okkar þjóðfélagi þótt að það hafi náð þeim aldri þegar sem löglegt er að menn fari að þiggja eftirlaun samkvæmt landsins lögum. Að öðru leyti ætla ég ekki að blanda mér í þessar umræður en vildi að þessi sjónarmið kæmu hér fram.