Framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum

106. fundur
Föstudaginn 24. febrúar 1995, kl. 22:54:01 (5038)


[22:54]
     Frsm. umhvn. (Kristín Einarsdóttir) :
    Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti umhvn. um frv. til laga um stuðning við framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum. Þetta frv. var lagt fram í vikunni og eru örfáir dagar síðan var mælt fyrir því. Umhvn. ákvað að vinda sér strax í málið og reyna að athuga hvort ekki tækist að afgreiða það á þeim stutta tíma sem við höfðum og fékk til fundar við sig nokkra aðila sem getið er um í nefndaráliti. Það er skemmst frá því að segja að nefndin er sammála um að mæla með því að frv. verði samþykkt óbreytt en leggur þó áherslu á að styrkveitingar til sveitarfélaga samkvæmt frv. taki til allra framkvæmda sem eru styrkhæfar samkvæmt 3. gr. þótt þær séu að hluta til greiddar af öðrum en sveitarfélögum, enda séu þær áfangi í heildarlausn á fráveitumálum sveitarfélaga sbr. 7. gr. en þar er tekið fram að skilyrði fyrir fjárstuðningi er að framkvæmdin sé áfangi í heildarlausn á fráveitumálum sveitarfélaga.
    Undir nefndarálitið skrifa allir nefndarmenn í umhvn.