Stofnun Vilhjálms Stefánssonar á Akureyri

106. fundur
Föstudaginn 24. febrúar 1995, kl. 22:55:48 (5039)

[22:55]
     Frsm. umhvn. (Kristín Einarsdóttir) :
    Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti umhvn. sem er á þskj. 823, um till. til þál. um stofnun Vilhjálms Stefánssonar á Akureyri. Þetta er annað þingið sem umhvn. hefur þessa þáltill. til meðferðar. Breyting á henni er óveruleg frá því á síðasta þingi en hún felst fyrst og fremst í því að núna er lagt til að stofnunin eða miðstöðin, sem talað er um að verði komið á fót, verði kennd við Vilhjálm Stefánsson.
    Umhvn. leggur til breytingu á tillögunni og vil ég, með leyfi forseta, lesa hana upp en hún er svo:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að undirbúa að sett verði á fót á Akureyri stofnun eða miðstöð um heimskautamálefni sem kennd verði við Vilhjálm Stefánsson og hafi það hlutverk að stuðla að sem öflugustum rannsóknum innlendra aðila á norðurslóðum og alþjóðlegri þátttöku í þeim málum er varða heimskautasvæðið.
    Stofnunin eða miðstöðin, sem heyri undir umhvrn., verði að stofni til kostuð af íslenska ríkinu en leiti sem víðast fjárhagsstuðnings við einstök verkefni. Hún skal m.a. annast ráðgjöf um norðurmálefni og eiga samstarf við erlenda og innlenda háskóla og rannsóknastofnanir.
    Sett verði á fót undir forustu umhvrn. föst samvinnunefnd um norðurmálefni, skipuð fulltrúum þeirra innlendu stofnana sem hafa með höndum verkefni er tengjast heimskautarannsóknum. Samvinnunefndin velji auk formanns nefndarinnar, sem umhvrh. skipar án tilnefningar, tvo úr sínum hópi í stjórn þessarar stofnunar eða miðstöðvar.
    Miðað er við að starfsemin hefjist í ársbyrjun 1997.``
    Undir þetta álit umhvn. skrifa allir nefndarmenn sem sæti eiga í umhvn. og leggja til að Alþingi samþykki þessa tillögu svo breytta.