Stofnun Vilhjálms Stefánssonar á Akureyri

106. fundur
Föstudaginn 24. febrúar 1995, kl. 23:00:48 (5041)


[23:00]
     Frsm. umhvn. (Kristín Einarsdóttir) :
    Herra forseti. Þetta atriði var að sjálfsögðu rætt innan nefndarinnar en það er nokkuð erfitt að gera sér nákvæmlega grein fyrir hver kostnaðurinn gæti orðið. Nefndin miðar við að þarna sé ekki um umfangsmikla starfsemi að ræða, þ.e. ekki mannfrek stofnun. Það er talað um litla stofnun. En ég ætla að benda hv. þm. á að það var rætt sérstaklega í nefndinni og kemur fram í nál. að það eru miklar líkur á því og hefur sýnt sig að að erlendir aðilar hafa mikinn áhugi á því að styrkja slíka stofnun. Þess vegna bendum við á það í nál., ef ég má lesa það, með leyfi forseta:
    ,,Rétt er að við undirbúning málsins, á vegum stjórnvalda, verði haft samráð við þá sem láta sig varða rannsóknir á norðurslóðum og athugað með hugsanlegan stuðning erlendis frá við þessa stofnun eða miðstöð.``
    Það hefur sýnt sig að mjög margir hafa áhuga á rannsóknum á norðurslóðum. Þetta er mjög mikilvægt svæði og margar íslenskar stofnanir, við getum nefnt háskólana bæði á Akureyri og í Reykjavík og aðrar stofnanir, hafa stundað rannsóknir á þessu sviði. Það er verið að tala um að þessi stofnun sjái um samstarf og samvinnu á þeim rannsóknum sem stundaðar eru nú þegar þannig að ekki fari fram umfangsmiklar rannsóknir hjá þessari miðstöð. Auk þess er gert ráð fyrir því að það verði kannað hvort þetta tengist ekki hugsanlega öðrum stofnunum eins og t.d. Náttúrufræðistofnun Íslands á Akureyri eða einhverjum öðrum stofnunum sem fyrir eru. Það er því ekki mjög gott að gera sér nákvæmlega grein fyrir kostnaðinum en á það var lögð áhersla af okkar hálfu að um lítil umsvif væri að ræða hjá sjálfri stofnuninni. En það útilokar auðvitað ekki mikil umsvif ef mikið fjármagn bærist til stofnunarinnar og þá er ég ekki síst að hugsa um fjármagn frá erlendum aðilum í þessu sambandi.