Varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum

106. fundur
Föstudaginn 24. febrúar 1995, kl. 23:09:01 (5044)

[23:09]
     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Eins og kemur fram í áliti nefndarinnar og brtt. þá stendur nefndin sameiginlega að breytingum á frv. og skilar af sér sameiginlegu nál. Þó skrifa ég undir álitið með fyrirvara og ætla hér að gera grein fyrir í hverju hann er fólginn.
    Ég vil aðeins víkja að því áður en ég kem að því atriði sem mér fannst standa upp úr að mörgu leyti í umfjöllun nefndarinnar um þetta mál sem er heimsókn gesta okkar til umfjöllunar um málið og þá kannski fyrst og fremst Björgunarhundasveitar Íslands sem er lítt þekktur félagsskapur en sem kom rækilega fram í dagsljósið í janúar sl. við leit í snjó eftir snjóflóð. Það var afar fróðlegt að fá upplýsingar um starfsemi þeirrar sveitar og þá þýðingu sem starf hennar hefur í þessum björgunarþætti málsins. Enn fremur var afar fróðlegt að fá upplýsingar um það hvernig að sveitinni er búið fjárhagslega og greinilegt að þörf er á að Alþingi og aðrir sem málið vilja láta til sín taka geri þar verulega bragarbót á. Það þarf kannski ekki að fara mörgum orðum um gildi þess að þjálfa hunda til leitar að fólki. Ég hygg að mönnum sé það öllum orðið ljóst en gildið er þvílíkt að það jafnast á við margar hendur manna. Það kom fram í þeim upplýsingum sem komu fram í nefndinni að um níu útkallshæfir leitarhundar eru á landinu á vegum þessarar sveitar en þyrftu að vera mun fleiri ef vel ætti að vera.
    Til þess að unnt sé að gera átak í þessum efnum þarf meira fjármagn og því nefni ég þetta atriði að ég vil minna menn á að hafa það í huga á næsta hausti við afgreiðslu fjárlaga að Alþingi muni eftir þessari sveit og starfsemi og láti eitthvað til hennar rakna á þeim tíma.
    En víkjum að þeim fyrirvara sem ég hef við afgreiðslu málsins. Hann er við eitt atriði þess, hvernig standa eigi að uppkaupum á fasteignum þegar sveitarstjórn hefur komist að þeirri niðurstöðu að betra sé að leitast eftir því að kaupa upp húseignir fremur en að leggja í kostnað við að koma upp vörnum við þau sömu hús. Þetta er að mínu mati ákaflega eðlileg breyting og hefur reyndar verið að nokkru leyti opin í gildandi lögum en er áréttuð með sérstakri brtt. til þess að taka af öll tvímæli um það að þessi valkostur á að vera við höndina og fullgildur í samanburði við aðra valkosti sem menn hafa einblínt á fram til þessa. Þetta er verulegt hagsmunamál fyrir íbúa þeirra staða þar sem hætta er á snjóflóðum og skriðuföllum. Samkvæmt mati fróðra manna um það efni er talið að um 500--600 íbúðarhús séu á hættusvæði eins og það er skilgreint nú. Menn óttast að í kjölfar þess að hættumat verði endurskoðað kunni þessum húsum að fjölga. Með strangari kröfum til hættumats og íbúðarhúsa gætu orðið allt að 1.000 til 1.100 hús sem féllu inn á þessi svæði. Það er því greinilegt að í náinni framtíð verður eitthvað um það að sveitarfélög velja þann kost að kaupa upp íbúðarhúsnæði fremur en að leggja í kostnað við varnarvirki. Það er hins vegar ómögulegt að segja á þessari stundu í hve miklum mæli það kann að verða. En af tölunum sem ég hef nefnt er ljóst að það verða umtalsverðar fjárhæðir.
    Það skiptir því miklu máli að ganga frá í lagasetningu sæmilega skýrum reglum um hvernig að þessum uppkaupum verður staðið og að þær séu þannig úr garði gerðar að sem mestar líkur séu á því að um þær verði þokkaleg sátt hjá þeim sem við þær eiga að búa.
    Í brtt. á þskj. 793 er í 2. tölul. gerð grein fyrir tillögu nefndarinnar hvað þetta varðar. Að mínu mati gengur brtt. of skammt því ég hefði kosið að setja í tillöguna fyllri ákvæði til þess að lýsa þeirri hugsun sem er síðan reynt að skýra betur í nál. Að mínu mati gengur lagatextinn ekki nægilega langt til þess sem er skaði því þegar farið verður að vinna eftir lögunum þá verður það lagatextinn sem ræður úrslitum og túlkun á honum en ekki nál. Þó svo að það geti verið til stuðnings við að móta túlkunarreglur þá getum við ekki haldið því fram með neinni vissu að það sem við setjum í nál. og ætlum að verða praktíserandi lagaframkvæmd nái fram að ganga.
    Eins og menn sjá sem lesa brtt. þá er gert ráð fyrir að fyrirkomulagið verði þannig að um samninga sé að ræða í öllum meginatriðum á milli sveitarfélags annars vegar og eiganda íbúðarhúsnæðis hins vegar, eða eins og segir, með leyfi forseta, í 2. tölul. á þskj. 793:
    ,,Náist ekki samkomulag um kaup á húseign er sveitarstjórn heimilt að taka eignina eignarnámi.``
    Þessi setning segir okkur það að um tvennt sé að ræða. Annars vegar að aðilar nái samkomulagi, ef ekki þá verði um eignarnám að ræða. Lagatextinn segir ekkert meira þannig að hann hefur ekki að geyma nein frekari fyrirmæli til þess sem á að kaupa fasteignina, hvaða verð löggjafinn ætlast til að greitt verði eða haft verði til viðmiðunar og með hvaða hætti staðið verði að því.
    Það má kannski frekar átta sig á því sem nefndarmenn eru að meina með því að lesa nefndarálitið. Þar kemur það fram að ætlunin er að framkvæmdirnar verði þannig að ef íbúðareigandinn ætlar að byggja að nýju þá skuli greiða honum fjárhæðina eftir vátryggingarfjárhæð viðlagatryggingar eða svonefndu brunabótamati. Ef seljandinn ákveður hins vegar að byggja ekki í sveitarfélaginu þá eigi verðið að vera samkvæmt fasteignamati. Nál. gerir þannig ráð fyrir því að um bein fyrirmæli sé að ræða um verð í báðum tilvikum, þegar um er að ræða sölu á fasteign og ætlunin að kaupa aðra, hvort heldur er í sama sveitarfélagi eða annars staðar. Hinn kosturinn er þá að byggja í sama sveitarfélagi.
    Ég held að þessi skilningur komist ekki til skila í lagatextanum þannig að ég hef verið á þeirri skoðun að ætli menn að tryggja að þetta verði framkvæmdin þá verði að bæta lagatextann sem gerir einvörðungu ráð fyrir samkomulagi en ekki beinum fyrirmælum um verð. Ég held að nauðsynlegt sé að styrkja lagatextann vegna þess að staða seljandans er afar slæm í frjálsum samningum eins og gert er ráð fyrir í lagagreininni. Hann er búinn að fá þann dóm að íbúðarhús hans sé ekki íbúðarhæft til frambúðar og honum beri því í raun að rýma það og náist ekki samkomulag milli hans og sveitarfélags breytir það því ekki að hann verður eftir sem áður að flytja úr húsinu af því að væntanlega er ekki rétt að leyfa honum að dvelja í því, a.m.k. ekki yfir vetrarmánuðina.
    Ef menn ætla sér að hafa fyrirkomulagið algjörlega frjálsa samninga þá held ég að staðan sé þannig að það halli á þann sem á að selja og því þurfi að setja inn ákvæði til þess að rétta hans hlut. Það gæti verið sá texti sem menn eru með í nál. sem er nokkuð skýr og ég get tekið undir þar sem eru í raun bein fyrirmæli um viðmiðun í báðum tilvikum.
    Ég tel að við ættum að ganga þannig frá því að lagafyrirkomulagið væri það að fyrst væri um að ræða val. Sá sem selur, sá sem á íbúðarhúsnæðið, ætti valið og það væri skýrt að hann gæti valið um það að byggja í sínu sveitarfélagi eða hann gæti ákveðið að kaupa. Ef honum er tryggður valrétturinn þá held ég að sú aðferð sem nál. lýsir geti gengið í öllum meginatriðum. En ég hef sett fram þá skoðun að þá þyrftu menn að bæta úr í lagatextanum.
    Í þessu felst ekki að það hafi verið neinn ágreiningur um efni á milli mín og annarra nefndarmanna, það má segja að það hafi verið ágreiningur um það að hve miklu leyti væri nauðsynlegt að lýsa þessu í lagatexta.
    Ég vil svo velta upp nokkrum atriðum sem menn verða að hafa hugsað til enda þegar menn ganga frá löggjöf af þessu tagi því það er hægt að ímynda sér ýmsa möguleika sem geta komið upp og við þurfum að vera búin að sjá við þeim þannig að niðurstaðan verði ekki óréttlát í þeim tilvikum. Þannig mætti hugsa sér hvort lagatextinn nái því sem við ætlum í tilvikum eins og því þegar um er að ræða nýbyggt hús sem eigandinn hefur byggt og byggingarkostnaðurinn nokkuð þekkt stærð og á húsinu hvílir skuld að verulegu leyti fyrir byggingarkostnaði.
    Ef ekki eru styrk fyrirmæli í lagatexta heldur einungis byggt á frjálsum samningum og markaðsverð væri tiltölulega lágt í viðkomandi sveitarfélagi þá gæti eigandi hússins staðið frammi fyrir því að verða að flytja úr því og geta ekki nýtt sér það og stendur til boða að selja það fyrir verð sem er miklu lægra en nemur byggingarkostnaði og jafnvel miklu lægra en nemur áhvílandi skuldum. Það held ég að enginn ætli sér að gera af þeim sem leggur þetta til en þessi staða gæti komið upp ef ekki er þeim mun tryggilegar gengið frá þessum hlutum í lagatexta.
    Önnur spurning sem menn gætu staðið frammi fyrir er hvort við erum ásátt um að í þeim tilvikum þegar viðkomandi vill selja sitt hús til sveitarstjórnarinnar og ætlar að byggja á nýjan leik í sama sveitarfélagi þá eigi hann í þeim tilvikum að fá andvirði brunabótamats þess húss sem hann lætur af hendi.
    Ef hann ákveður að byggja miklu minna hús en hann á og byggingarkostnaðurinn verður miklu minni þá spurðu menn: Hvað á að gera þá? Út af fyrir sig má segja að svörin sem menn komu með voru mismunandi. Ég vil svara þessu fyrir mitt leyti að það á að vera val þess sem lætur húsið af hendi. Mér sýnist það vera eðlilegasta niðurstaðan. Það er hans val hvort hann byggir jafnstórt hús og jafndýrt eða hvort hann byggir minna hús og andvirðið rennur þá til hans enda hvort sem er hans eign sem hann er að láta af hendi.
    Fleiri möguleikar eru hugsanlegir líka sem menn þurfa að vera búnir að sjá fyrir en ég ætla ekki

að rekja frekar en orðið er. Ég nefni þetta til þess að beina athyglinni að því að við þurfum að þaulhugsa þetta þannig að við séum búin að sjá við sem flestum möguleikum sem upp geta komið. Ef okkur tekst ekki nægilega vel til þá geta þessir hlutir valdið verulegri óánægju þannig að það er hyggilegast að reyna að vanda sig sem mest strax í upphafi. En engu að síður er ég á þeirri skoðun að við eigum að afgreiða málið nú og því stend ég að þeirri tillögu sem hér liggur fyrir, hún er betri en það sem fyrir er, þó ég vilji vekja athygli á því að ég tel að menn eigi að gera betur. Við getum líka alltaf bætt úr síðar og það kemur þing eftir þetta þing, t.d. næsta haust, sem gæti þá tekið á úrlausnarefnum sem upp hefðu komið og okkur yfirsést núna. En ég hvet til þess að menn íhugi þetta atriði og leiti í sameiningu að bótum á þessu ákvæði í frv. eða brtt.
    Ég ætla sjálfur ekki að fara að standa að því að flytja sjálfstæða brtt. Ég legg mikið upp úr því að menn verði samferða í þessu máli en þykir rétt að benda á þetta atriði sem er afar viðkvæmt og nauðsynlegt að menn vandi sig sem mest við lagasmíð sem á að taka á þessu, þ.e. uppkaupum á fasteignum þegar það er talinn vænlegri kostur eða ódýrari en að koma upp varnarvirkjum.