Afgreiðsla sjúkraliðafrv. úr nefnd

106. fundur
Laugardaginn 25. febrúar 1995, kl. 00:25:39 (5051)


[00:25]
     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Hæstv. forseti. Af þessu gefna tilefni vil ég taka fram að þetta mál er töluvert öðruvísi vaxið en þau mál önnur sem við ræðum hér nú í tengslum við nýgerða kjarasamninga. Þannig var að forustumenn og talsmenn sjúkraliða óskuðu sérstaklega eftir því að þetta mál yrði lagt fram sem stjfrv. Það var áréttað af þremur ráðherrum sameiginlega, ekki einu sinni heldur oftar, að á það væri hægt að fallast en jafnframt margtekið fram að í þeirri yfirlýsingu fælist ekkert um það hver afgreiðsla málsins kynni að verða hér á þinginu. Þetta gat ekki farið á milli mála. Engu að síður óskuðu þessir talsmenn sjúkraliða eindregið eftir því að málið yrði lagt fram á þinginu þó að margítrekað væri að ekkert yrði hægt að segja fyrir um það hvaða afgreiðslu málið fengi hér í þingsalnum.
    Ég átti fund í morgun sem formaður BSRB hafði milligöngu um með honum og talsmönnum sjúkraliða. Þar kom fram að talsmenn sjúkraliða höfðu lagt þann skilning í þetta mál að það að mál yrði lagt fram sem stjfrv. og ekki væri hægt að segja neitt fyrir um afgreiðslu þess þýddi það að menn lofuðust til þess að málið gengi til 3. umr. og atkvæðagreiðslu. Þessir ágætu fulltrúar höfðu enga ástæðu til þess að skilja málið svo. En það má vera að ókunnugleiki þeirra á störfum þingsins hafi leitt til þess að þeir hafi skilið málið svo. En það var ekkert tilefni gefið til þess af hálfu ráðherra að málið yrði skilið með þessum hætti.
    Ég fyrir mitt leyti get sagt það að ég var, óháð þessari yfirlýsingu um stjfrv., efnislega sammála því að það væri rétt að greiða þessu frv. atkvæði, sá ekki annmarka á því. En ég gat ekkert sagt fyrir um vilja þingsins í þeim efnum. Við höfðum ekki borið okkur saman við þingflokkana að neinu leyti til áður en þessi yfirlýsing var gefin og það var fulltrúum sjúkraliða gert algerlega ljóst en þeir kusu eingöngu þetta að málið er lagt fram sem stjfrv. þó að því fylgdu engar aðrar skuldbindingar. Þetta vildi ég taka fram vegna þess að ég heyrði að vísu ekki fréttirnar kl. 12 en ég heyrði hins vegar að fréttamaður Ríkisútvarpsins, Guðrún Eyjólfsdóttir, hafi sagt í dag, ekki eftir sjúkraliðum heldur fullyrt að því hefði verið lofað að málið yrði afgreitt hér í þinginu. Það er rangt, algerlega rangt.