Afgreiðsla sjúkraliðafrv. úr nefnd

106. fundur
Laugardaginn 25. febrúar 1995, kl. 00:38:25 (5057)


[00:38]
     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Lausnir á langvarandi verkföllum á Íslandi eru afar viðkvæmt mál. Lagasetningar í tengslum við kjarasamninga eru auðvitað þess eðlis að þegar forustumenn ríkisstjórna taka lagafrv. sem meginhluta lausnar á langvarandi kjaradeilu þá skilja allir venjulegir borgarar þessa lands það að á bak við

slíka niðurstöðu sé fyrirheit um stuðning. Nú segir hæstv. heilbrrh. að það hafi legið í orðum ráðherranna þessa nótt þegar við sáum þá tala hér í hliðarherbergjum við forustumenn sjúkraliða að ráðherrarnir ætluðu allir að greiða frv. atkvæði, sagði hæstv. heilbrrh. hérna áðan. Ráðherrarnir allir gáfu fyrirheit um að greiða frv. atkvæði, sagði hæstv. heilbrrh. hérna áðan. Þekkja menn einhver dæmi um það hér í þingsögunni að allur ráðherrabekkurinn stilli sér upp á eina lund í atkvæðagreiðslu, þá séu völdin tekin af þeim af fulltrúum eins stjórnarflokksins í viðkomandi nefnd? Ég fullyrði: Það er ekkert slíkt dæmi til, ekkert slíkt dæmi. Og að ætlast til þess að við trúum því hér að þegar heilbrrh. lýsir því yfir að öll ríkisstjórnin hafi ætlað að greiða frv. atkvæði þá séu fulltrúar Sjálfstfl. í nefndinni allt í einu orðnir svo valdamiklir að þeir taki málið í sínar hendur og þar með sé málið bara svona einfalt. Það getur ekki verið rétt lýsing á málinu vegna þess að það er í mótsögn við allar þær venjur sem hér hafa tíðkast, það er í mótsögn við allt það sem við þekkjum hér í þinginu um samvinnu stjórnarþingmanna og ríkisstjórnar.
    Við sem ekki hlustuðum á það samtal sem hér er vitnað til getum auðvitað ekki gerst dómarar í því hvað var sagt og hvað var ekki sagt. En yfirlýsing um það að allir ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafi ætlað að greiða frv. atkvæði er auðvitað jafngildi þess að stjórnarflokkarnir standi á bak við frv. Slíkur er máttur ráðherra í atkvæðagreiðslu hér í þinginu. Það er því alveg ljóst að það hafa einhverjir þeir hlutir gerst í þessu máli sem gera það að verkum að allir fulltrúar Sjálfstfl. í nefndinni hafa komið í veg fyrir það að málið sé afgreitt út úr nefndinni, hafa komið í veg fyrir það að ráðherrarnir fengju að greiða því atkvæði vegna þess að það sagði hæstv. heilbrrh. hérna áðan að eitt væri þó ljóst í þessu máli að ráðherrarnir hefðu allir gefið fyrirheit um að greiða því atkvæði. En nú eru fjórir fulltrúar Sjálfstfl. í nefndinni búnir að koma í veg fyrir það að sú atkvæðagreiðsla ráðherranna fái að birtast hér í salnum.