Afgreiðsla sjúkraliðafrv. úr nefnd

106. fundur
Laugardaginn 25. febrúar 1995, kl. 00:45:02 (5060)


[00:45]
     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Jafnþingreyndur maður og hv. 8. þm. Reykn. veit það að þegar mál er flutt sem stjfrv. þá er það eðli máls að ráðherrar í ríkisstjórninni munu fylgja málinu þannig að sú yfirlýsing sem hæstv. forsrh. gaf, að málið yrði flutt sem stjfrv., þýðir að ráðherrar munu styðja það.
    Við megum hins vegar ekki gleyma forsögu málsins og forsagan var sú að það var gerð tilraun til þess að afgreiða frv. til laga um sjúkraliða á síðasta þingi. Um það náðist ekki sátt á Alþingi og málið gekk ekki til afgreiðslu. Það var því sett í nefnd þar sem reynt var að ná samkomulagi. Það samkomulag náðist ekki vegna þess að það var andstaða við frv., bæði frá félögum ófaglærðs starfsfólks í heilbrigðisþjónustu og frá hjúkrunarfræðingum. Ég lofaði hins vegar að beita mér fyrir því að reyna að ná frv.

út úr nefndinni svo hægt væri að flytja það sem stjfrv. Það náðist út úr nefndinni með meiri hluta nefndarmanna gegn mótmælum fulltrúa Hjúkrunarfélags Íslands og með hjásetu fulltrúa ófaglærðra starfsmanna í heilbrigðisþjónustu sem áttu sæti í nefndinni. Það var því alveg ljóst að það var mikil andstaða við frv. og að sú andstaða mundi örugglega koma fram þegar heilbr.- og trn. færi að fjalla um málið. Þess vegna sögðum við hæstv. forsrh. að við gætum ekki tryggt að málið yrði afgreitt á Alþingi þó svo það yrði lagt fram sem stjfrv. Ég held að þetta hljóti mönnum að vera alveg ljóst og það var nákvæmlega þetta sem gerðist. Það er ekki mitt hlutverk að skýra frá því hvaða upplýsingar heilbr.- og trn. fékk frá þeim aðilum sem hún fékk til umsagnar. Það er hennar að gera það en það hefur augsjáanlega komið fram mikil andstaða við málið.
    Ég ítreka þá skoðun mína að ef málið hefði komið til atkvæða þá hefði ég greitt því atkvæði, ekki bara vegna þess að ég hafði samþykkt að þetta yrði flutt sem stjfrv. heldur er ég sjálfur þeirrar skoðunar að sú breyting sem átti að gera á lögum um sjúkraliða sé rétt en það er alveg ljóst að málið er í höndum Alþingis og það er alveg ljóst í mínum huga að það voru fleiri sem voru andvígir því að afgreiða málið en bara sjálfstæðismenn eins og látið hefur verið í veðri vaka. Það voru aðeins tveir fulltrúar í heilbr.- og trn. sem tilbúnir voru að leggja til á fundi nefndarinnar í dag að málið gengi til atkvæða eins og það hafði verið lagt fyrir þingið.