Afgreiðsla sjúkraliðafrv. úr nefnd

106. fundur
Laugardaginn 25. febrúar 1995, kl. 01:01:48 (5066)


[01:01]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Hæstv. forseti. Við vitum það öll að þetta mál, þ.e. frv. um sjúkraliðana, er umdeilt mál og þess vegna hlýt ég að spyrja hvers vegna og hvernig á því standi að þetta frv. kom svona seint inn í þingið og hvers vegna það gerðist að hæstv. heilbrrh. mælti ekki fyrir málinu fyrr en í síðustu viku þings vegna þess að ef eitthvað er ljóst, þá er það það að þingið og nefndir þingsins þurfa meiri tíma til þess að skoða svona umdeild og erfið mál. Nú hef ég ekki haft tækifæri til þess að fylgjast með störfum nefndarinnar í þessu máli en ég held að það sé alveg ljóst og okkur hljóti öllum að vera það ljóst að komi þetta mál ekki inn í þingið þá veldur það miklum vanda. Þetta mun vekja óróa og uppnám meðal sjúkraliða því að það er alveg ljóst að þeir líta svo á að þetta sé hluti af þeirra kjarasamningi og málið snýst um það að tryggja stöðu sjúkraliða sem stéttar í heilbrigðiskerfinu. Það hefði þurft að leggja meiri vinnu í það að reyna að skilgreina verksvið og hvernig á að skipta verkum milli hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða, en ég fæ ekki betur séð en við séum komin í mikinn vanda og ég held að nefndin hljóti að setjast aftur yfir þetta mál og reyna að finna einhverja lausn. Ekki veit ég hvort það kemur til verkfalls aftur en þetta mun skapa mikla óánægju meðal sjúkraliða sem hafa þrýst mjög á um það að fá þetta mál afgreitt. Ég skora á hv. formann nefndarinnar að gera aðra tilraun til þess að finna lausn á þessu máli.
    En ég vil taka það fram að hér hefur verið mikið álag undanfarna daga og ég efast um að þingflokkar hafi haft tíma til þess að fara ofan í þetta mál. Það hefur rignt yfir okkur bréfum frá hjúkrunarfræðingum og sjúkraliðum og þetta er mál sem þarf að fara vel ofan í. Ég treysti mér ekki til þess á þessari stundu að svara því hvort það tekst en það er auðvitað hinn lýðræðislegi meiri hluti sem á að taka afstöðu til málsins á endanum.