Afgreiðsla sjúkraliðafrv. úr nefnd

106. fundur
Laugardaginn 25. febrúar 1995, kl. 01:05:53 (5068)


[01:05]
     Ingi Björn Albertsson :
    Hæstv. forseti. Ég get sagt hv. síðasta ræðumanni að það hefur margoft myndast nýr meiri hluti í hv. allshn. þannig að það er ekkert nýtt.
    Hæstv. forseti. Ég hef margoft talað fyrir því hér að níu manna þingnefndir eigi ekki að taka atkvæðisréttinn af þeim 54 öðrum þingmönnum sem sitja á Alþingi. Mitt erindi hér upp er því fyrst og fremst það að biðja hæstv. forseta að túlka fyrir mig þá athöfn sem hér fer fram. Eftir að 1. umr. um mál er lokið þá greiðum við atkvæði um það að vísa málinu til 2. umr. og nefndar og ég vil biðja hæstv. forseta að útskýra það fyrir þingheimi hvað það þýðir þegar þingheimur greiðir atkvæði um það að vísa máli til 2. umr. Í mínum huga þýðir það það að mál eiga að koma aftur inn í þingið. Það liggur í orðanna hljóðan og það er nákvæmlega það í mínum huga sem þingið er að greiða atkvæði um, að öll mál eigi að koma út úr nefndum þingsins í þingsali þar sem hinir 54 þingmennirnir fá að taka afstöðu til tiltekins máls. Og ég óska eftir því að hæstv. forseti túlki þetta fyrir okkur hinum þingmönnunum.