Afgreiðsla sjúkraliðafrv. úr nefnd

106. fundur
Laugardaginn 25. febrúar 1995, kl. 01:12:33 (5072)


[01:12]
     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegi forseti. Þetta er nokkuð lærdómsrík umræða sem hér fer fram. Það er greinilega mikill feluleikur í kringum þetta mál. Í fyrsta lagi er það að talsmenn ríkisstjórnarflokkanna reyna að gefa það í skyn, koma þeirri túlkun til almennings og þeirra sem í hlut eiga, að þeir séu stikkfrí, aðeins ráðherrarnir hafi lofað að bera málið fram og styðja það en allt hitt liðið geti haldið að sér höndum. Þetta er ekki eðlileg túlkun máls. Svona er ekki litið á stjfrv. almennt séð.
    Hitt er svo alveg jafnljóst að það sætir tíðindum ef flokkar eða fulltrúar í stjórnarandstöðu notfæra sér ekki þann möguleika að koma máli inn í þingið til afgreiðslu þótt gegn vilja stjórnarflokkanna sé. Það sætir tíðindum og í því felst ákveðin afstaða. Fram hjá því komast menn ekki. Eftir stendur að fulltrúar tveggja flokka leggja þetta til en hafa ekki fengið tilskilinn stuðning til þess innan nefndarinnar. Þannig liggur málið einfaldlega. Og ábyrgðin er ekkert minni hjá þeim sem eru stjórnarandstöðumegin innan nefnarinnar en hafa ekki kosið að mynda þar meiri hluta með fulltrúa annars stjórnarflokksins til þess að fá málið inn í þingið. Þetta held ég að ætti að vera sæmilega ljóst eftir þennan langa málfund um þetta efni.