Afgreiðsla sjúkraliðafrv. úr nefnd

106. fundur
Laugardaginn 25. febrúar 1995, kl. 01:14:56 (5073)


[01:14]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegur forseti. Málflutningur hv. 5. þm. Norðurl. e. áðan var afar sérstakur og ég ætla að rifja hér upp eitt atvik frá afgreiðslu fjárlaga. Hv. þm. Matthías Bjarnason gerði athugasemd við nál. meiri hluta fjárln. Það varð þvílíkt uppistand að hv. þm. Geir Haarde bað um hlé á fundi og kallaði þingflokkinn til fundar hér niðri og þingstarf var allt í upplausn það sem eftir var þess kvölds. Ef túlkun hv. þm. Tómasar Inga Olrich er rétt, að almennir þingmenn séu ekkert bundnir af stjfrv., almennir stjórnarþingmenn, þá er svo komið að hv. þm., ásamt öðrum þingmönnum Sjálfstfl., er kominn í hóp með hv. þm. Eggert Haukdal, hv. þm. Inga Birni Albertssyni og hv. þm. Matthíasi Bjarnasyni, sem hafa ekki talið sér á þessu kjörtímabili skylt að fylgja eftir stjfrv. Og við getum svona aðeins velt því fyrir okkur hvernig þingstörf hefðu gengið fyrir sig þetta kjörtímabil ef mál hefðu þannig gengið fram. Ég hefði ekki grátið það því að það hefði þýtt að hæstv. ríkisstjórn hefði ekki lifað af fyrsta veturinn og farið hefði fé betra.