Afgreiðsla sjúkraliðafrv. úr nefnd

106. fundur
Laugardaginn 25. febrúar 1995, kl. 01:18:10 (5076)


[01:18]
     Guðni Ágústsson :
    Hæstv. forseti. Það er rétt sem hér hefur komið fram að þau frv. sem verða að stjfrv. fá auðvitað sérstaka meðferð. Hér í þingsalnum og þinghúsinu býst ég við að formenn þingflokka stjórnarflokkanna séu hv. þm. Geir Haarde og Sigbjörn Gunnarsson. Það væri fróðlegt að þeir vitnuðu hér með hvaða hætti þeir lögðu þetta mál fyrir sína þingflokka og hver voru þau fyrirheit eða hvað lögðu þeir fyrir sína menn? Var það ekki meining hv. þingflokksformanna að málið fengi þinglega meðferð og að lokum afgreiðslu án þess að fyrirheit lægi fyrir um að það yrði að lögum óbreytt og kynni málið í heild sinni að falla. Því ég er sannfærður um það að sjúkraliðar eru mjög ósáttir ef málið fær ekki afgreiðslu hér á þingi. Ég fann það í gær á þeim sem ég ræddi við að þeir voru ekki vissir um úrslit því að þeir höfðu aðeins þessi níu atkvæði ráðherranna í stjórnarliðinu trygg og töldu sig þó eiga fleiri þar einnig. Mig langar því til að þessir lykilmenn í störfum þingsins gefi hér skýringu á því hvernig þeir lögðu málið fyrir og til hvers þeir ætluðust af sínum mönnum.