Afgreiðsla sjúkraliðafrv. úr nefnd

106. fundur
Laugardaginn 25. febrúar 1995, kl. 01:27:02 (5081)


[01:27]
     Eggert Haukdal :
    Virðulegi forseti. Þessi umræða gaf hv. 6. þm. Norðurl. e. tækifæri til þess að víkja orðum sínum að mér, að ég hefði hagað mér þannig á þessu kjörtímabili að styðja ekki frv. þessarar ríkisstjórnar. (Gripið fram í.) Þetta er gersamlega rangt, þó að í einstaka tilfellum hafi ég haft sjálfstæða skoðun. Það vill nú svo til í flokki hv. þm. Jóhannesar Geirs að þegar sá flokkur er í ríkisstjórn, þá hefur þar aldrei nokkur þingmaður burði til að hafa sjálfstæðar skoðanir í máli. Þetta vildi ég láta koma hér fram.
    En varðandi það sem hv. þm. Ingi Björn sagði hér þá hefur hann algerlega lög að mæla. Þetta mál á bara að koma hér inn í þingið og til atkvæða. Og hv. 6. þm. Norðurl. e., Jóhannes Geir, mætti minnast þess að hann, bæði í fyrra og aftur núna, liggur á málum í nefnd, frv. um lánskjör og ávöxtun sparifjár, sem hefur meirihlutafylgi hér í hv. Alþingi ef hann hefði drullað því frá sér hér inn í þing. Svo að þessi umræða gefur tilefni til ákaflega margs.