Afgreiðsla sjúkraliðafrv. úr nefnd

106. fundur
Laugardaginn 25. febrúar 1995, kl. 01:45:05 (5088)


[01:45]
     Lára Margrét Ragnarsdóttir :
    Hæstv. forseti. Ég vil ekki taka þátt í þessum orðaleik eins og hann hefur farið fram undanfarinn klukkutíma. Ég vil hreinlega segja frá því starfi sem ég hef sinnt í nefndinni frá því að ég hóf þessa umræðu. Ég kom þarna að mig minnir á annan fund nefndarinnar sem fjallaði um þetta mál og það var ljóst strax þá að kalla þurfti miklu fleiri til viðræðna. Það var ljóst að umsagnir bæði frá hjúkrunarfræðingum og Sóknarfólki voru neikvæðar og ýmsum öðrum heilbrigðisstéttum en það var líka ljóst að það er ekki eining meðal sjúkraliða um lausn þessa máls og þess vegna fengum við til fundar við okkur í gær þrjá sjúkraliða sem sögðu frá sinni skoðun. Eftir þennan fund taldi ég ljóst að það þyrfti að kalla mun fleiri til til þess að gefa umsagnir um þetta mál og það væri engan veginn fullunnið.
    Ég var þeirrar skoðunar að það þyrfti dágóðan hóp sem kæmi að þessu máli ( ÓRG: Má ekki beita sömu aðferðum við ASÍ-frv. sem eru hér inni?) Ég hef ekki komið að þeim í nefndum. En alla vega vil ég halda því fram að þarna hafi þurft talsvert mikla vinnu til viðbótar til þess að geta lokið þessu máli og mér þótti það mjög leitt hversu mikið af neikvæðum umsögnum voru þarna en jákvæð umsögn var bara ein og það var frá forustu þessa fagfélags en ekki öðrum. ( ÓRG: Hverjir báðu um umsagnirnar? Þingmenn Sjálfstfl.)
    ( Forseti (GunnS) : Ég vil biðja hv. þingmenn að sýna hv. ræðumanni virðingu og hætta samtölum eða frammíköllum.)
    Ég vil einnig segja það að í kvöld áður en kom að þessari ákvörðun formanns um að hætta þessu starfi í nefndinni þá komu fram hjá öllum nema einum nefndarmanni upplýsingar um að það væru ýmiss konar vandkvæði við að koma þessu máli út úr nefndinni. Það var sitt hvor skoðunin. Það var ekki komin fram að mínu mati fram sú vinna sem þyrfti til til þess að taka afgerandi ákvörðun innan nefndarinnar og formaður mat það svo að vinnan fram undan yrði það mikil að það væri ekki möguleiki að ljúka þessari vinnu fyrir þinglok. Ég virði þá skoðun formanns.